Styð ekki áfengisfrumvarpið
- segir Oddný G. Harðardóttir, Samfylkingu
Ég mun ekki styðja áfengisfrumvarpið og fyrir því eru þessar ástæður helstar:
1. Áfengi er ekki eins og hver önnur matvara. Skaðsemi áfengis er vel þekkt og þó að það sé ekki nema bara vegna þess á aðeins að selja áfengi í sérverslunum.
2. Aukið aðgengi að áfengi eykur neyslu. Nú gætu þeir sem eru ósammála mér sagt að aukningin sé nú ekki svo mikil. Þá er því til að svara að hvert prósentustig sem bætist við í aukinni neyslu áfengis vegur enn þyngra og veldur enn meiri skaða en prósentustigið þar fyrir neðan. Þarna geta til dæmis legið mörkin á milli hóflegrar neyslu og of mikillar neyslu.
3. Aukin neysla áfengis veldur heilsuskaða. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin metur það svo að áfengisneysla sé meðal sterkustu áhættuþátta lýðheilsu. Kostnaður vegna neyslu áfengis kemur fram í samfélaginu; í heilbrigðiskerfinu, löggæslu og dómskerfinu, tryggingakerfinu og í atvinnulífinu. Ef þingmönnum er alvara með því að styðja frumvarpið þurfa þau líka að segja hvaðan á að taka peningana til að mæta þeim kostnaði.
4. Aukin neysla eykur vanlíðan afkomenda og aðstandenda þess sem neytir áfengis í óhófi. Ef stjórnvöld taka ákvarðanir sem leiða til aukinnar neyslu áfengis mun vanlíðan til dæmis barna og ungmenna þessa lands aukast. Það er meðal þeirra aukaverkana sem frumvarpið hefði í för með sér verði það að lögum.
5. Ef áfengi er í sérverslunum er það sérstök ákvörðun að ganga inn í áfengisverslunina og kaupa áfengi en ekki hugdetta svona um leið og gengið er fram hjá áfengisrekkanum í matvörubúðinni.
6. Forvarnastarf Íslendinga í áfengismálum hefur vakið alþjóðlega athygli. Það starf byggir meðal annars á því hvernig við höfum takmarkað aðgang og þannig vil ég hafa það áfram hér á landi,“ segir Oddný G. Harðardóttir, þingmaður í Suðurkjördæmi.