Sturla heiðraður af Samstöðu
Sturla Böðvarsson, fyrrverandi samgönguráðherra, var í dag heiðraður af samtökunum Samstöðu, sem Steinþór Jónsson frá Reykjanesbæ veitir forystu. Viðurkenninguna hlýtur Sturla fyrir góð verk í þágu umferðaröryggis, en í ráðherratíð hans var m.a. ráðist í að tvöfalda Reykjanesbraut. Í ræðu sinni sagði Steinþór m.a. :
Sturla Böðvarsson hefur verið ötul stuðningsmaður grasrótarsamtaka og lagt sig fram til að viðhalda áróðri og vexti þeirra sem þar vinna.
Sturla var Samgönguráðherra þegar fyrsti 2+2 vegurinn var ákeðinn og framkvæmdir hófust. Hann tryggði fjármögnun verkefna í umferðaröryggisáætlun og það var mikil lyftistöng þegar umferðaröryggisáætlun varð hluti af samgönguáætlun.
Í viðurkenningarskyni fyrir verk sín afhenti Steinþór honum heiðursverðlaun Samstöðu en um er að ræða pennasett með áletruninni „Heiðursverðlaun Samstöðu - þakklæti fyrir góð verk í þágu umferðaröryggis.“
Þá afhenti Áhugahópur um tvöfalda Reykjanesbraut Sturlu samsetta mynd þar sem saga baráttunnar, sem hófst í janúar 2000, var rakin.
Auk þess afhenti Steinþór Sturlu sérútbúið trékefli sem á er letrað „Samstaða - slysalaus sýn“ og afhenti Sturla nýráðnum samgönguráherra, Kristjáni Möller, það sem tákn um baráttuna til að útrýma banaslysum í umferðinni.
Að loknum fundi fóru forsvarsmenn Áhugahópsins og lögðu krans á leiði Árna R. Árnasonar, þingmanns, sem var einn af upphafsmönnum baráttunnar fyrir tvöfaldri Reykjanesbraut.
Samstaða skorar á alla þá sem vilja taka þátt í baráttunni um fækkun umferðarslysa að skrá sig í Samstöðu á vefsíðunni www.nullsyn.is . Þannig er hægt að halda áfram góðu verki og vinna að slysalausri sýn í umferðinni á Íslandi með nýjum samgönguráðherra, lögregluyfirvöldum, Vegagerð, Umferðarstofu, FÍB og fleiri aðilum.
Samstaða leggur áherslu á að fagna jákvæðum áföngum í baráttunni og snúa þannig umræðunni í jákvæða baráttu sem geti skilað árangri í stað þess að einblína um of á neikvæð tímabil í slysasögu Íslendinga.
Það sem af er ári hafa tveir einstaklingar látið lífið í umferðinni, og þrátt fyrir að það sé enn of há tala er það engu að síður það lægsta sem sést hefur á þessum tímapunkti í áratug.
VF-myndir/Stefán