Stungu sér í sjóinn við Keflavíkurhöfn
„Vá, hvað þetta er kalt maður,“ sögðu strákarnir sem stukku í sjóinn við Keflavíkurhöfn í dag. Strákarnir sem allir eru 15 ára gáfu sér góðan tíma í að mana sig upp í að stökkva í sjóinn. Og þegar að stökkinu kom létu þeir sig vaða, einn og einn í einu. Og kaldur hlýtur hann að hafa verið því ekki voru þeir lengi að synda að flotbryggjunni sem liggur við Keflavíkurhöfnina.
Þegar þeir voru spurðir hvort þeir gerðu þetta oft svöruðu þeir því til að þetta hafi verið í fyrsta skipti – og að það hafi verið ansi hressandi. Þeir ætluðu að stökkva aftur, enda líkaminn búinn að venjast köldum sjónum.
Myndin: Þeir voru hraustir guttarnir sem létu sig vaða í sjóinn við Keflavíkurhöfn í blíðunni í dag. VF-ljósmyndir/Jóhannes Kr. Kristjánsson.