Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Stungin til bana eftir deilur við grunaða
Mánudagur 15. ágúst 2005 kl. 17:49

Stungin til bana eftir deilur við grunaða

Tvítuga bandaríska konan sem fannst látin í blokk einhleypra varnarliðsmanna í nótt var stungin margsinnis á gangi annarri hæð hússins samkvæmt heimildum Víkurfrétta. Konan náði að koma sér niður á fyrstu hæð þar sem hún lést. Aðrir varnarliðsmenn fundu konuna þar sem hún lá í blóði sínu í sófa blokkarinnar.

Bandaríski varnarliðsmaðurinn, sem er grunaður um verknaðinn og er tvítugur að aldri, hafði lent í deilum við stúlkuna fyrir nokkrum mánuðum. Hann hafði, ásamt öðrum varnarliðsmanni, stolið kredit korti stúlkunnar og tekið af því töluverðar fjárhæðir. Komst það mál upp og var einum varnarliðsmanni vikið úr hernum í kjölfarið. Hinn varnarliðsmaðurinn er sá grunaði og samkvæmt heimildum Víkurfrétta átti eftir að rétta í máli hans. Hann er enn í varðhaldi.

Íslenska stúlkan sem var í yfirheyrslum hjá Lögreglunni á Keflavíkurflugvelli og bandaríska hernum er 29 ára gömul og er unnusta meints geranda. Samkvæmt heimildum var hún ekki vitni að árásinni en var þó á staðnum.

Samkvæmt heimildum Víkurfrétta bentu aðstæður í stigaganginum til þess að um mikil átök hafi átt sér stað. Rannsóknarmenn hersins hafa unnið við leit að morðvopninu í dag og hafa sést menn klæddir hvítum búningum að leita í ruslagámum sem standa við húsnæðisblokkir varnarliðsmanna.

Allir þeir varnarliðsmenn sem búa í blokkinni voru kallaðir til yfirheyrslu og standa þær enn yfir. Lögreglan á Keflavíkurflugvelli vinnur að rannsókn málsins ásamt hernum en von er á bandarískum rannsóknarmönnum frá Bretlandi til að aðstoða við að upplýsa málið.

Myndin: Blokkin sem tvítuga stúlkan fannst látin í - Myndina fengu Víkurfréttir frá aðila sem ekki vildi láta nafn síns getið.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024