Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Föstudagur 7. febrúar 2003 kl. 16:08

Stúlka bitin af hundi og smiðjukarl missti framan af fingri

Hundur beit stúlku í höndina við björgunarstöðina í Sandgerði nú í vikunni. Lögreglan var kölluð til. Hundurinn var styggur en var fljótlega handsamaður af eiganda sínum. Faðir stúlkunnar fór með hana til læknis. Þá varð vinnuslys um borð í báti við Grindavíkurhöfn þar sem starfsmaður vélsmiðju missti framan af fingri. Ýmislegt annað hefur komið inn á borð lögreglunnar í Keflavík í vikunni eins og sjá má á meðfylgjandi dagbók lögreglu.Mánudagurinn 3. febrúar 2003.
Kl. 11:09 var tilkynnt um harðan árekstur á Stekki við Njarðarbraut á Fitjum í Njarðvík. Annarri bifreiðinni var ekið aftan á hina þar sem hún var kyrrstæð við gatnamótin. Farþegi í annarri bifreiðinni kenndi lítillega til eymsla.
Kl. 16:37 var tilkynnt um vinnuslys um borð í báti í Grindavíkurhöfn þar sem starfsmaður vélsmiðju, sem var að vinna um borð í bátnum, missti framan af fingri. Maðurinn var fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar.
Tveir ökumenn voru kærðir fyrir hraðakstur í umdæminu í dag. Annar þeirra var stöðvaður á Garðvegi á 113km/klst. og hinn var á Reykjanesbraut á 109km/klst.
Kl. 20.22 var tilkynnt að hundur sem var laus við Björgunarstöðina í Sandgerði hafi bitið stúlku í höndina. Fóru lögreglumenn á staðinn og var faðir stúlkunnar kominn og ætlaði hann að fara með hana til læknis. Hundurinn var laus á vettvangi og var mjög styggur en eigandi hans kom fljótlega á staðinn og handsamaði hundinn.
Þriðjudagurinn 4. febrúar 2003.
6 ökumenn voru kærðir fyrir hraðakstur, 5 á Reykjanesbraut og einn á Njarðarbraut en hann var á 80 km hraða þar sem hámarkshraði er 50.
Einn ökumaður var kærður fyrir stöðvunarskyldubrot á gatnamótum Hringbrautar/Flugvallarvegar.
11 voru kærðir fyrir að vanrækja að færa bifreiðar sínar til aðalskoðunar.
Þá voru skráningarnúmer tekin af tveim bifreiðum, af annarri vegna vanrækslu á Vátryggingarskyldu og önnur vegna aðalskoðunar.
Miðvikudagur 5. febrúar 2003
Einn ökumaður var stöðvaður vegna stöðvunarskyldubrots. Þrír voru stöðvaðir á Reykjanesbraut vegna hraðaksturs. Þar sem hámarkshraði er 90 voru tveir stöðvaðir, annar mældist á 116 km hraða en hinn á 112 km hraða. Þar sem hámarkshraði er 70 km var einn stöðvaður á 102 km hraða.
Kl. 10:40 voru lögreglumenn í eftirliti á Reykjanesbraut og veittu athygli vöruflutningabifreið þar sem sandfarmur fauk af henni í rokinu.Í ljós kom að yfirbreiðslu vantaði yfir farminn. Ökumaður vörubifreiðarinnar var kærður fyrir að vera ekki með yfirbreiðslu yfir farminn.
Kl. 11:10 var tilkynnt að bifreið hafi verið ekið útaf Grindavíkurvegi nálægt Bláalónsafleggjaranum í mikilli hálku og roki. Ekki varð slys á fólki. Bifreiðin var óökufær og var tekin burtu með kranabifreið.
Fimmtudagur 6. febrúar 2003
Kl. 08:52 barst tilkynning um innbrot í bifreið við Heiðarhvamm í Keflavík. Lögreglumenn fóru á staðinn. Þar hafði rúða verið brotin á bifreiðinni og stolið pioneer-geislaspilara, magnara, hátölurum, radarvara og bassakeilu. Ekki er vitað hver þarna var að verki.
Kl. 10:07 var tilkynnt um innbrot í Gerðaskóla í Garði. Lögreglumenn fóru á staðinn. Þar hafði verið spennt upp útidyrahurð. Stolið var tölvu og hljómflutningstækjum. Ekki vitað hvaða tegund.
Tveir voru teknir fyrir of hraðan akstur á Reykjanesbraut annar í Kúagerði á 117 á 90 kafla og hinn á Fitjum á 101km hraða þar sem hámarkshraði er 70.
Á Hafnargötu í Keflavík var ökumaður kærður fyrir að aka á 82 km hraða á 50 kafla.
Þessa fjóra daga voru 18 eigendur bifreiða kærðir fyrir vanrækslu á aðalskoðun.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024