Stuðningsmenn Keflavíkur hittast á Ölveri
Keflavík mætir þýska liðinu Mainz á Laugardalsvelli í kvöld og hefst leikurinn kl. 19.15. Um er að ræða seinni leik liðannna í undankeppni UEFA-Bikarsins, en Mainz vann fyrri leikinn, 2-0.
Því er nú komið að úrslitastund fyrir Keflvíkinga og róðurinn þungur. Þeir eiga hins vegar góða að og munu stuðningsmenn liðins hittast á Ölveri fyrir leik.
Þeir áætla að koma saman kl 16 í dag og gera sér glaðan dag ásamt stuðningsmönnum Mainz. Þar verður meðal annars látinn rúlla 3 klst. langur dvd diskur sem Mainzarar gerðu í kringum leikinn úti, þar sem leikurinn er sýndur í heild sinni ásamt fjölda viðtala og stemmningu í stúkunni, ásamt því að Keflavíkurlagið fær að fljóta undir myndefninu.
Svo verður ýmis varningur til sölu á Ölver tengdur Keflavík og rennur ágóðinn að sjálfsögðu beint til félagsins. Einnig verða stuðningslög og söngvar æfðir og verður tilboð á barnum fram að leik.
Allir eru hvattir til að mæta og láta sitt ekki eftir liggja í hvatningarsöngvunum.