Straumhvörf í ferðamálum á svæðinu
Keilir hefur veg og vanda að verkefninu en Guðmundur Pétursson framkvæmdastjóri ÍAV-þjónustu hefur unnið ötullega að því að koma verkinu í réttan farveg. Einnig hefur Iðnaðarráðuneytið komið að verkefninu.
Verkefnið snýst um það að koma gamla hervellinum inn á þennan markhóp sem Military.com er og um leið stuðla að því að ónotaðar íbúðir á Ásbrú komist í notkun. Þetta myndi styrkja atvinnumál hér hjá iðnaðarmönnum og ekki síður rekstraraðilum þeirra húsa sem færu í notkun.
Hugmyndin að þessu spennandi verkefni kviknaði fyrir tilstuðlan Thomas F. Hall sem um tíma var aðmíráll á Keflavíkurflugvelli og þekkir því vel til hér. Thomas er mikill Íslandsvinur og hefur verið tíður gestur hérlendis allt frá því að hann yfirgaf landið á sínum tíma. Eiginkona hans, Barbara er m.a. verndari Garðvangs í Garðinum en þau hjónin voru búsett hérlendis á árunum 1992-1998. Thomas er einn þeirra sem koma að vefsíðunni military.com sem er vefsíða fyrir hermenn Bandaríkjahers. Þar inni eru 20 milljón skráðir notendur, allt frá þeim sem eru að huga að því að ganga í herinn til þeirra sem eru komnir á eftirlaun. Á mánuði eru um 6 milljón manns sem eru virkir á síðunni. „Markhópurinn telur um 20 milljónir manna. Eitt promill af því eru 20.000 manns. Sumir myndu segja að það væri ekki metnaðarfullt. Svo geta menn bara reiknað út hvað þetta myndi færa svæðinu hér í gistingu, mat, afþreyingu, bílaleigum og öðru sem fylgir ferðþjónustu,“ segir Hjálmar Árnason framkvæmdarstjóri hjá Keili.
Tom og Barbara, önnur og þriðju til vinstri á myndinni.
Ætlunin er að einblína á þennan markhóp. Hermenn sem fara snemma á eftirlaun og margir þeirra eru duglegir að ferðast eftir starfslok. Hér gæti verið gott að nýta húsnæði og aðstöðu sem er í boði á Ásbrú til þess að taka á móti þessum hópi hermanna. Markmiðið er að fá þessa ferðamenn til þess að heimsækja Suðurnesin og bjóða upp á fjölbreytta þjónustu í þágu þeirra en verkefnið er þróað með þá sérstaklega í huga. Tugþúsundir hermanna bjuggu hérlendis á þeim tíma sem herinn var og hét og má ætla að fjölskyldur þeirra og vinir viti af Íslandi og þá sér í lagi Keflavíkurflugvelli. Þar kemur að þætti vefsíðu sem verið er að setja á laggirnar samhliða verkefninu en hún mun bera heitið keflanding.com.
Markmið vefsíðunnar keflanding.com er að hafa allt á einum stað með áherslu á Suðurnesin. Vefsíðan býður upp á ferðaþjónustu þar sem gestir geta fengið aðstoð við að útbúa eigin dagskrá eða keypt tilbúin ferðapakka. Sérstök áhersla er lögð á ferðir tengdar sögu Naskef ásamt því sem sérstök athygli er vakin á því sem Suðurnesin sjálf hafa upp á að bjóða.
„Þar sem við erum í samkeppni við erlendar herstöðvar er mikilvægt að sýna gildi Íslands í hnotskurn líka. Vefsíðan á að auðvelda alla undirbúningsvinnu þar sem fólk getur valið sjálft hvað það nákvæmlega á meðan það skoðar og fer í gegnum þá staði sem við mælum með og segjum frá,“ segir Bryndís Hjálmarsdóttir verkefnisstjóri.
Bryndís segir að ekki sé nóg að hafa góða vöru og bjóða upp á frábæra þjónustu heldur sé nauðsynlegt að markhópurinn viti af okkur og hefur Bryndís því unnið að markaðsáætlun sem einblínir á að skapa vitund innan markhópsins ásamt því að örva áhuga á verkefninu.
„Við höfum í gegnum Tom Hall komið á góðu samstarfi við military.com þar sem við höfum fengið mjög jákvæð viðbrögð og munu forsvarsmenn þar aðstoða okkur við að kynna sérstaklega keflanding.com,“ segir Bryndís.
Verkefnið ætti bæði að auka fjölda ferðamanna á svæðinu með því að ná til þessa hnitmiðaða markhóps auk þess að hafa þann möguleika á að stækka með aðkomu almennra ferðamanna. Þar með getum við einnig beint almennum ferðamönnum á svæðið okkar á skilvirkari hátt og lagt sérstaka áherslu á náttúruperlur, afþreyingu og menningu sem svæðið býður upp á því við höfum jú eitt umfram öll önnur landsvæði og það er staðsetningin.
Hér munu skapast mikil fjárfestingartækifæri í kjölfarið að mati Guðmundar Péturssonar hjá ÍAV og er öllum sem tengjast ferðaiðnaði á Suðurnesjum velkomið að koma að þessu verkefni sem þó er enn á vinnslustigi. „Það er þó gríðarlega sterkt og mikilvægt að hafa Thomas Hall innanborðs en hann er hátt settur og mikils metinn. Hann er í lykilstöðu til þess að gera þessu kleift að fæðast og dafna. Verkefnið snýst einnig um að vera með alla sem eru hér í ferðamálum á þessum vef til að bjóða alla þjónustu sem til er á svæðinu. Þarna er stór markhópur og hér er t.d. verið að undirbúa kaldastríðssafn í gamla officera klúbbnum sem mun klárlega tengjast þessu er að kemur. Þetta gæti orðið öflug vefsíða með alla um borð sem hafa á því áhuga,“ bætti Guðmundur við.
Samtök atvinnurekenda á Suðurnesjum sem stofnuð voru árið 2010 mun fjárfesta í verkefninu en hugsanlega mun þetta auka atvinnutækifæri á svæðinu en töluverðar ráðstafarnir þarf líklega að gera í húsnæðismálum ef slíkur fjöldu myndi sækjast eftir gistingu hingað. Bæði þyrfti að bæta við gistiplássi og gera endurbætur á öðru húsnæði.
Hjálmar Árnason framkvæmdarstjóri Keilis er fullur bjartsýni og vill sjá samstöðu í þessu mikla grettistaki ferðamála á svæðinu.
„Gangi hugmyndirnar eftir tel ég að þetta geti valdið straumhvörfum í ferðamálum Reykjaness. Mikið virðist vanta upp á að næg samstaða sé fyrir hendi meðal ferðaþjónustuaðila á svæðinu. Keppikefli allra hefur lengi verið að fá ferðamenn til að staldra aðeins við á Reykjanesi í stað þess að þeysa strax burt og skila engu hér. Nægt höfum við að bjóða en hefur einhvern veginn ekki tekist að koma til skila. Þó ekki væri annað en að þjappa fólki í þessum bransa saman þá væri til mikils unnið.
Hins vegar er þessi hugmynd Tom Hall að laða hingað þennan tiltekna markhóp athyglisverð,“ sagði Hjálmar.