STRANDAÐ Á STRÖNDINNI
Þrír ungir menn á aldrinum 17, 18 og 19 ára sigldu 9 tonna trefjaplastbáti í strand í Flekkuvík á Vatnsleysuströnd um síðustu helgi. Vegfarendur, sem áttu leið um svæðið, keyrðu fram á ungan og sjóblautan pilt sem sagði að hann og tveir félagar hans hefðu strandað í víkinni. Þeir höfðu stolið bátnum þar sem hann lá bundinn við bryggju í Kópavogi og haldið til hafs. Piltarnir létu ekki þar við sitja og unnu töluverðar skemmdir á bátnum, brutu hurðir og fleira. Þeir eru einnig grunaðir um að hafa skemmt fleiri báta sem voru við bryggjuna í Kópavogi. Lögreglan í Kópavogi hefur það mál til rannsóknar. Ungu mennirnir voru fluttir í fangahús Lögreglunnar í Keflavík og látnir sofa úr sér, því þeir voru allir grunaðir um ölvun.