Strákur af Kirkjuteignum sem kann að spila á fiðlu
- Hjartað slær hér segir nýr bæjarstjóri RNB í viðtali við Víkurfréttir
Kjartan Már Kjartansson er nýr bæjarstjóri Reykjanesbæjar. Hann segir að ráðningin hafi ekki komið honum á óvart og kveðst spenntur fyrir því takast á við spennandi og krefjandi verkefni. Varðandi pólitíska fortíð sína þá segir Kjartan að hann hafi ekki verið viðloðinn stjórnmál um allnokkurt skeið og vonast til þess að hann verði ekki settur út af sakramentinu vegna starfa sinna fyrir Framsóknarflokkinn um 12 ára skeið.
Kom ráðningin þér í opna skjöldu? „Nei í sjálfu sér ekki. Ég átti alveg eins von á þessu. Ég uppfyllti öll skilyrði sem sett voru fram varðandi menntun og reynslu auk þess er ég innfæddur og þekki sveitarfélagið mitt vel, ég tel því mig hafa það sem þarf í starfið,“ segir Kjartan.
„Mér þykir vænt um sveitarfélagið mitt og hér slær hjarta mitt“
„Þetta er spennandi og krefjandi verkefni sem ég ætla að nálgast af virðingu og með auðmýkt. Mér þykir vænt um sveitarfélagið mitt. Hér slær hjarta mitt og hér ætla ég mér að vera og gera eins vel og ég mögulega get. Mér líst vel á allt þetta góða fólk sem ég er að fara að starfa með. Þarna er blanda af reynsluboltum og nýju fólki. Fólk á ölllum aldri, bæði karlar og konur og tel ég þetta vera góðan þverskurð af okkar samfélagi. Þetta er fólk sem vill bænum sínum vel og það verður spennandi að vinna með þeim,“ segir verðandi bæjarstjóri.
Varðandi fortíð sína í pólitík þá segir Kjartan að hann hafi sagt sig úr Framsóknarflokknum fyrir nokkrum árum. Ástæðuna segir hann vera að hann hafi viljað vera ópólitískur auk þess sem sumt í starfi flokksins hafi ekki verið samkvæmt hans sannfæringu. „Ég hef ekki skipt mér af stjórnmálum í nokkur ár en ég hef auðvitað mínar skoðanir. Ég ætla mér ekkert að opinbera þær en ég gæti unað við eitthvað í stefnuskrám allra flokka,“ segir Kjartan. Hann telur þó að þetta séu ákveðin skilaboð til unga fólksins sem er við störf hjá stjórnmálaflokkum. „Þó svo að þú takir þátt í stjórnmálastarfi á einhverjum hluta ævinnar, eins og ég gerði í 12 ár, þá þýðir það ekki að þú verðir settur út af sakramentinu af öllum hinum það sem eftir er.“
En hver er nýr bæjarstjóri Reykjanesbæjar? „Hann er strákur af Kirkjuteignum sem kann að spila á fiðlu,“ segir Kjartan og hlær. „Ég ætla bara að halda áfram að vera sá sem ég er. Ég ætla ekkert að breyta mér neitt. Ég mun nota þekkingu mína til þess að gera gott og eiga samskipti við alla þá góðu starfsmenn sem að vinna hjá Reykjanesbæ,“ bætir hann við.
Hvaða málefni eru nýjum bæjarstjóra ofarlega í huga? „Ég held að stóra málið séu fjármál sveitarfélagsins. Ég held að það muni fara mikil orka í þau mál fyrstu misserin og árin jafnvel. Við þurfum þó að sinna ýmsum góðum málum, ég og allir bæjarfulltrúar. Þeir leggja línurnar og ég sé svo um að framkvæma verkin.“ Varðandi starfssvið sitt þá telur Kjartan að best væri að líkja því saman við starf framkvæmdastjóra í fyrirtæki. „Ég mun starfa líkt og framkvæmdastjóri sem fer eftir stefnumörkun stjórnar og hrindi henni í framkvæmd. Þetta er í raun rekstur á stóru fyrirtæki í samvinnu við allan þann fjölda sem starfar hjá Reykjanesbæ og kemur að máli.“
Kjartan hefur síðustu sex ár gegnt stöðu framkvæmdastjóra Securitas á Suðurnesjum og er honum annt um fyrirtækið. „Mér er ekki sama hvernig ég skil við hér og hvernig fyrirtækinu reiðir af. Hér vinna núna 37 manns, en þau störf voru ekki til fyrir. Ég vona að hér komi góð manneskja í minn stað,“ segir Kjartan að lokum.