Strákarnir úr 70 mínútum hjá Símanum í Keflavík í dag
Strákarnir úr hinum geysivinsæla sjónvarpsþætti 70 mínútur sem sýndur er á sjónvarpsstöðinni Popptíví koma til Keflavíkur í dag. Eru þeir sérstakir gestir Símadaga sem haldnir eru á vegum Símans í Keflavík. Á símadögum verður ýmislegt á döfinni í dag og ýmis tilboð í gangi.
Jón Sigurðsson Idol-stjarna kemur í verslun Símans að Hafnargötu í Keflavík klukkan 16 í dag. Hann mun taka nokkur lög og gefa eiginhandaráritanir.
Klukkan 17 mæta svo liðsmenn 70 mínútna og ætla sér að setja Íslandsmet, blanda ógeðsdrykk, framkvæma vinnustaðahrekk og hver veit nema íbúar Reykjanesbæjar lendi í falinni myndavél.
Á morgun mæta landsfrægir knattspyrnumenn til Keflavíkur á borð við Guðna Bergsson, Eyjólf Sverrisson, Arnór Guðjohnsen og Sigurð Jónsson. Þeir verða á Keflavíkurvelli á milli klukkan 14 og 16 á morgun.
Myndin: Auddi úr 70 Mínútum hefur áður komið til Keflavíkur. Félagarnir úr 70 mínútum verða í verslun Símans að Hafnargötu klukkan 17 í dag. VF-ljósmynd/Þorgils Jónsson.