Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Strætóbílstjóri bitinn í höfuðið
Mynd frá öðru atviki sem átti sér stað í strætó fyrr á árinu.
Miðvikudagur 6. desember 2017 kl. 11:19

Strætóbílstjóri bitinn í höfuðið

-„Það er alltaf vandamál með þessa stráka“ segir bílstjórinn

Ráðist var á strætóbílstjóra um kl. 17:25 í Reykjanesbæ í gær og hann bitinn í höfuðið. Lögreglan lýsir nú eftir vitnum af árásinni.

Víkurfréttir náðu tali af bílstjóranum en samkvæmt honum var árásarmaðurinn strákur á sextán ára aldri, sem hafði hangið nokkra hringi í strætónum á leið um Ásbrú. „Það er alltaf vandamál með þessa stráka. Þeir eru bara að hanga í bílnum, borða og drekka. Einn þeirra skildi svo orkudrykk eftir í strætónum og ég fór með drykkinn til hans og bað hann að taka hann. Þá beit hann mig í höfuðið.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Atvikið var tekið upp á myndband, margir urðu vitni að þessu en einungis tveir farþegar skiptu sér af og komu bílstjóranum til hjálpar, en þeir voru báðir af erlendu bergi brotnir.

Atvikið átti sér stað á stoppistöð strætó fyrir utan Krossmóa, en umræddur bílstjóri var fluttur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til aðhlynningar. „Ég er rútubílstjóri, ekki barnapía.“ Aðspurður sagðist bílstjórinn vera hræddur við að mæta aftur í vinnuna.

Lögreglan hefur í ófá skipti síðustu mánuði verið kölluð til vegna uppákoma í strætó, en Guðlaugur H. Sigurjónsson, sviðstjóri Umhverfissviðs, segir gjörsamlega ólíðandi að almenningsvagnar séu notaðir sem einhvert „hang out“ hjá unglingum með tilheyrandi ónæði og skemmdarverkum. Borist hafi þónokkrar kvartanir vegna þess. „Nú þegar farið er að ráðast á bílstjóra líka er mælirinn fullur. Á þessu þarf að taka og það verður gert.“


„Svona líta bílarnir út eftir „rúntarana“. Þvílíkt virðingarleysi að sitja í bíl hring eftir hring, vera með háreisti sín á milli og gagnvart öðrum farþegum og dunda sér við að skemma bílana á meðan.“ Þetta segir Sævar Baldursson, rekstraraðili almenningsvagnanna, á Facebook síðu íbúa Reykjanesbæjar.

Þeir sem hafa upplýsingar um málið eru beðnir að setja sig í samband við lögregluna á Suðurnesjum í síma 444-2200 eða í gegnum Facebook.