Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Stórvirkar vinnuvélar í auglýsingastríði flugeldasala
Þriðjudagur 30. desember 2008 kl. 21:00

Stórvirkar vinnuvélar í auglýsingastríði flugeldasala



Harka virðist hlaupin í auglýsingastríð flugeldasala í Reykjanesbæ. Nú beita menn stórvirkum vinnuvélum í stríðinu til að vekja athygli á sinni flugeldasölu. Nýjustu vopnin eru fjögurra öxla malarflutningabíll og hjólaskófla af „stærstu“ gerð.

Talsmenn Björgunarsveitarinnar Suðurnes, sem rekið hefur flugeldasölu í björgunarstöðinni við Holtsgötu til fjölda ára, halda því fram að stórum malarflutningabíl sé vísvitandi lagt til að skyggja á auglýsingar um flugeldasölu björgunarsveitarinnar. Flutningabíllinn var, þegar þessi frétt var skrifuð, inni á bílastæði flugeldasölu sem einkaaðilar reka í húsnæði sem síðast hýsti bílasöluna SG bílar. Bílnum var ekki ólöglega lagt en skyggði á auglýsingar.

Björgunarsveitin hefur því brugðist við staðsetningu malarflutningabílsins með því að koma auglýsingaskilti fyrir í hjólaskóflu af stærstu gerð sem komið hefur verið fyrir á bílastæði við hlið einkareknu flugeldasölunnar. Það einkennir reyndar götuna Bolafót frá hringtorgi við Njarðarbraut og að Holtsgötu að þar eru skilti við skilti sem vísa annað hvort á flugeldasölu einkaaðilans eða á björgunarsveitina. Skiltaskógurinn er þannig að helst minnir á Las Vegas í Bandaríkjunum.

Haraldur Haraldsson, stjórnarmaður í Björgunarsveitinni Suðurnes, segir í viðtali á vefnum dv.is nú síðdegis að það gæti mikillar óánægju og að björgunarsveitarfólk finni fyrir mikilli reiði hjá almenningi. Haraldur segir að rætt hafi verið við þann sem stendur fyrir einkareknu flugeldasölunni, en það hafi ekki skilað árangri.

Björgunarsveitinni Suðurnes finnst mikilvægt að vekja athygli á flugeldasölu sinni sem sé í björgunarstöðinni að Holtsgötu 51 og hefur áhyggjur af því að þeir sem ætli sér að styrkja björgunarsveitirnar með flugeldakaupum fari inn á rangan sölustað. Björgunarsveitarfólk hvetur því fólk til þess að spyrja að því þegar það er komið inn á sölustaði flugelda hvort það sé að versla við björgunarsveitir.

Björgunarsveitin Suðurnes er með tvo sölustaði fyrir flugelda í Reykjanesbæ. Aðalsölustaðurinn er að Holtsgötu 51 í björgunarsveitarhúsinu og einnig í söluskúr við Reykjaneshöll.

Keflavík, íþrótta- og ungmennafélag, er með flugeldasölu við Iðavelli 7 í Keflavík og þá er flugeldasala á vegum einkaaðila undir merkjunum Alvöru flugeldar við Bolafót 1, þar sem SG bílar voru áður með starfsemi.


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024