Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

  • Stórútsala Fríhafnarinnar í fyrsta sinn haldin í Keflavík
    Hér í þessu húsnæði við Hafnargötu 90 verður stórútsala Fríhafnarinnar.
  • Stórútsala Fríhafnarinnar í fyrsta sinn haldin í Keflavík
    Ásta Dís Óladóttir framkvæmdastjóri Fríhafnarinnar.
Þriðjudagur 1. apríl 2014 kl. 09:23

Stórútsala Fríhafnarinnar í fyrsta sinn haldin í Keflavík

-Victoria's Secret undirfatnaður, þekkt rafmagnstæki og sælgæti á útsölu-Fríhafnarverði

„Við fengum undanþágu vegna þess að það hefur safnast upp lager á undanförnum árum. Þetta verður bara í 2 daga en við þurfum að gera okkur einhvern pening úr þessum varningi sem hefur safnast upp,“ segir Ásta Dís Óladóttir, framkvæmdstjóri Fríhafnarinnar í samtali við vf.is.

Þessi líklega vinsælasta verslun á Íslandi sem þó er „ekki“ á Íslandi þarf nú í fyrsta sinn að halda útsölu. Gríðarlegt magn af fatnaði, rafmagnsvörum, snyrtivörum, sælgæti og fleiru verður á risaútsölu sem hefst í dag kl. 13. Útsalan verður í húsnæði þar sem Arion banki var í góðærinu við Hafnargötu 90 en þarna var Samfylkingin líka fyrir síðustu alþingiskosningar.

„Þetta var þrautinni þyngra að fá þetta samþykkt í ráðuneytinu. Við munum skila ríkinu virðisaukaskatti af öllu sem við seljum en verðin verða engu að síður þannig að það munu allir fara brosandi hér út, sannkallað útsölu-Fríhafnarverð. Þetta er lager af margs konar varningi sem hefur safnast upp á síðustu árum og þar sem lang flestir starfsmenn okkar eru héðan af Suðurnesjum fékkst þetta samþykkt en 20% af sölunni mun renna í starfsmannasjóð. Þannig viljum við þakka því góða starfsfólki sem hefur unnið lengi hjá okkur,“ sagði Ásta Dís.

Meðal þekktra vara á útsölu má nefna Victoriu Secret undirfatnað, þekkt snyrtivörumerki og rafmagnstæki frá Sony, Canon og Nikon, snjallsímar, spjaldtölur, myndavélar og videovélar. Þá verður sælgæti frá íslenskum og erlendum framleiðendum einnig í boði. Þeir sem versla fyrir meira en 20 þús. kr. á risaútsölunni munu fá glaðning með sér heim. Ásta Dís játaði því hvorki né neitaði en heimildir Víkurfrétta herma að það sé skoskt viskí sem muni verða í kaupbæti.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Nú geta Íslendingar loksins verslað í Fríhöfninni án þess að vera á leið eða heim frá útlöndum en aðeins í tvo daga.