Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Stóru-Vogaskóli fékk landgræðsluverðlaun
Á myndinni eru f.v. Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, Eiríkur Jónsson, Þorfinnur Þórarinsson, Svava Bogadóttir og Sveinn Runólfsson, landgræðslustjóri.
Mánudagur 25. ágúst 2014 kl. 09:06

Stóru-Vogaskóli fékk landgræðsluverðlaun

Umhverfisráðherra- og auðlindaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, veitti landgræðsluverðlaunin 2014 við hátíðlega athöfn fyrir helgi. Verðlaunin eru árlega veitt einstaklingum, félagasamtökum og skólum sem unnið hafa að landgræðslu og landbótum.

Með þessari viðurkenningu vill Landgræðslan vekja athygli þjóðarinnar á fórnfúsu starfi fjölda þjóðfélagsþegna að landgræðslumálum og jafnframt hvetja aðra til dáða. Þetta var í 23. skipti sem Landgræðslan veitir landgræðsluverðlaun. Alls hafa 85 aðilar hlotið þessa viðurkenningu síðan árið 1992. Þess má geta að Landgræðslufélag Biskupstungna fagnar 20 ára starfsafmæli á þessu ári.

Eftirtaldir hlutu landgræðsluverðlaunin að þessu sinni: Eiríkur Jónsson í Gýgjarhólskoti, Þorfinnur Þórarinsson, Spóastöðum og Stóru-Vogaskóli í Vogum. Verðlaunagripirnir, Fjöregg Landgræðslunnar, eru unnir af Eik-listiðju, Miðhúsum á Fljótsdalshéraði.

Stóru-Vogaskóli í Vogum er vel í sveit settur til umhverfiskennslu. Við húsvegginn er fjara og tjörn sem henta vel til slíkrar fræðslu. Í nágrenni skólans er mólendi, sums staðar með jarðvegssárum sem þörf er á að græða upp. Nemendur og kennarar hafa sinnt uppgræðslu nær samfellt í þrjá áratugi. Á vorin er einum kennsludegi varið til uppgræðslunnar. Þá er grasfræi sáð, áburði dreift og trjáplöntur gróðursettar. Áhugasamir einstaklingar hafa drifið þetta starf áfram.

Stóru-Vogaskóli er þátttakandi í Grænfánaverkefni Landverndar. Umhverfisnefnd starfar við skólann, skipuð nemendum í 5.-10. bekk ásamt nokkrum kennurum og starfsmönnum. Í umhverfisstefnu skólans segir m.a.: ,,Við græðum upp land og ræktum skóg“. „Nemendur í 1 – 4. bekk Stóru–Vogaskóla vinna við landgræðslu einn dag í lok skólaársins. Á sama tíma vinna 5.-7. bekkur að gróðursetningu trjáplantna frá Yrkju“.

Skólinn vill vera til fyrirmyndar í umhverfismálum. Rusl er flokkað, leitast er við að spara orku, bæta nýtingu matvæla og á vorin fara allir út og hreinsa rusl í þéttbýlinu í Vogum.

Svava Bogadóttir, skólastjóri, veitti verðlaununum viðtöku fyrir hönd skólans.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024