Stórsöngvarinn lengi að finna 2 millj. kr. vinningsmiðann
„Hey, dúd. Þú hefur unnið bíl“
„Þetta var löng leit en sem betur fer fannst miðinn,“ sagði Jóhann Smári Sævarsson, stórsöngvari úr Keflavík en hann vann stærsta vinninginn í happdrætti Lionsklúbbs Njarðvíkur, Kia bifreið að verðmæti rúmar 2 millj. kr.
Sagan á bak við miðann er skrautleg svo ekki verði meira sagt. Einn elsti Lionsfélaginn, Hafnamaðurinn Jón Borgarson seldi Jóhanni Smára miðann þegar hann hitti á hann á göngunum í verslunarmiðstöðinni Krossmóa fyrir jól. Jón hafði fengið félaga sinn til að skrifa niður nafn og símanúmer Jóhanns en það er venja hjá Lionsfélögum að gera það svo það sé auðveldara að ná til vinningshafa. Skriftin var hins vegar ekki nógu greinileg og símanúmerið ekki heldur og Lionsfélagar voru í vandræðum með að finna nafn vinningshafans. Eftir nánari skoðun grunaði einn þeirra að eigandi miðans væri Jóhann Smári því númerið hans var ansi nálægt því sem hann hafði í símanum sínum og það mátti greina úr skriftinni að nafnið væri Jóhann. Það var því hringt í stórsöngvarann sem brá í brún og hóf þegar leit að miðanum sem hann hafði keypt af Jóni Borgars. Hann leitaði um allt á heimili sínu, fór í alla vasa á jökkum og buxum og leitaði stíft á öllum hugsanlegum stöðum þar sem miðinn gæti verið en án árangurs. Hann fór meira að segja heim til móður sinnar til að leita miðans og var þá farinn að hafa áhyggjur þegar hann fannst ekki.
„Svo datt mér í hug að kíkja í bílinn þar sem ég legg oft símann minn á milli sætanna þegar ég ríf hann upp úr buxnavasanum og þar fann ég hann eftir nokkra taugaþrungna leit. Hafði greinilega líka tekið miðann upp úr vasanum og lagt hann þarna. Ég setti svo upp smá leikrit á mínu heimili og bað strákinn minn um að fletta upp númerinu í Víkurfréttum og þá sagði hann við mig „Hey, dúd. Þú hefur unnið bíl,“ sagði Jóhann og hló.