Stórslysaæfing í Grindavík
Klukkan átta í morgun hófst stórslysaæfing í Grindavík á vegum Landsbjargar. Að sögn Otta Sigmarssonar fengu þeir afnot af húsi sem á að rífa og gátu því skipulagt stórslysaæfingu þar sem tæki, tól og þekkingu er beitt til að líkja eftir björgun.
Æfingin var sett upp þannig að líkt var eftir jarðskjálfta sem skekur Grindavík rétt fyrir klukkan átta á virkum degi með þeim afleiðingum að hluti grunnskólans hrynur. Töluverður fjöldi nemenda var kominn inn í skólabygginguna og fleiri voru fyrir utan, á leið inn.
Björgunarsveitarmenn þurftu að komast í gegnum veggi og húsþak til að ná til „slasaðra“.
Rúmlega 100 björgunarsveitamenn frá öllum landshlutum tóku þátt í æfingunni auk 25 slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna. Um 50 unglingar léku sjúklinga.
Myndir af vettvangi æfingarinnar í Þórkötlustaðalandi í Grindavík.