Stórleikur hjá Keflavík í kvöld. Madeira mætir í Sláturhúsið!
Keflvíkingar mæta portúgalska liðinu CAB Madeira í Evrópubikarnum í körfuknattleik í kvöld.
Mikil spenna er að myndast í bænum og er fullvíst að Keflvíkingar munu fjölmenna í Sláturhúsið við Sunnubraut í kvöld. Fyrsti leikur Keflavíkur í keppninni gefur góð fyrirheit en þeir lögðu franska stórliðið Reims að velli með tilþrifum.
Gunnar Einarsson, fyrirliði liðsins, átti stórleik síðast og lofar meiru af því sama í kvöld. „Maður stefnir auðvitað alltaf á að eiga góðan leik, sérstaklega í svona stórleikjum. Stemmningin í hópnum er góð og við munum búa okkur undir átökin með því að borða saman pasta hjá Dísu og Erlu. Svo verðum við að gíra okkur upp fram að leik.“
Andstæðingurinn er ekki alls ókunnugur þar sem liðin áttust einnig við í fyrra. Lið þeirra er hins vegar nokkuð breytt en Gunnar segir liðið nokkuð sterkt. „Þeim hefur ekki gengið vel í deildinni, en eru með góða leikmenn innanborðs. Við erum hins vegar með sterkan heimavöll og eigum að hafa þá ef við fáum góðan stuðning áhorfenda.“