Storkur á Fitjum
Storkur hefur haldið til á Fitjum í Reykjanesbæ síðustu tvo daga innan um álftir, endur og gæsir. Guðmundur Helgason fuglafræðingur hjá Náttufræðistofu Reykjaness sagði storka sjaldséða á Íslandi og því væri heimsókn storksins sem nú er á Fitjum merkileg. Hann sagði fjölmarga áhugamenn um fugla hafa verið í sambandi við stofnunina í gær og morgun vegna fuglsins.
Ljósmyndari Víkurfrétta hefur verið við Fitjar í morgun en þá var fuglinn ekki á tjörninni heldur í fjörunni neðan við tjarnirnar og gaf lítið færi á sér. Hann flaug upp þegar ljósmyndarinn nálgaðist hann.
Náttúrustofa Reykjaness væri til í að fá myndir af fuglinum og því er nú höfðað til áhugaljósmyndara að smella myndum af fuglinum á Fitjum. Víkurfréttir eru einnig til í að fá myndir og ætla að verðlauna bestu myndina. Þær má senda á [email protected].
Efri myndin: Storkurinn flaug upp þegar ljósmyndarinn nálgaðist hann. Á neðri myndinni eru það svo álftirnar, endurnar og gæsirnar sem hafa haft framandi gest í heimsókn síðustu tvo daga. VF-myndir: Hilmar Bragi Bárðarson