Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Stórkostlegar brotalamir í stjórnsýslu Reykjanesbæjar
Miðvikudagur 18. maí 2011 kl. 15:53

Stórkostlegar brotalamir í stjórnsýslu Reykjanesbæjar

„Eftir að hafa lesið ársreikninga Reykjanesbæjar fyrir árið 2010 og meðfylgjandi endurskoðunarskýrslu, koma í ljós stórkostlegar brotalamir í stjórnsýslu Reykjanesbæjar sem eru ámælisverðar,“ sagði Kristinn Jakobsson í bókun sinni við afgreiðslu Ársreiknings Reykjanesbæjar 2010 á bæjarstjórnarfundi í gær.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Ljóst er að ráðist hefur verið í framkvæmdir og kaup á hlutafélagi óskyldu rekstri bæjarfélagsins, án umræðu og afgreiðslu í bæjarráði eða bæjarstjórn. Um er að ræða kaup á hlut í Íslendingi ehf. sem er fjárfesting án heimildar á órekstrarhæfu hlutafélagi. Hlutafélag sem bærinn var áður búinn að lána rúmar 100 milljónir til rekstrar og framkvæmda og sem að auki skuldar 110 milljónir umfram eignir. Öllu alvarlegra er sú leynd sem hvílir yfir samskiptum bæjarins og Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga. Bæjarstjóri hefur haft 6 bæjarstjórnarfundi og 13 bæjarráðsfundi til að leggja fram aðvörunarbréf dagsett 9. febrúar sl., frá EFS sem stílað er á Bæjarstjórn Reykjanesbæjar. Bæjarstjóri svaraði bréfi EFS þann 4. apríl. Slík samskipti eiga að vera uppi á borðum og aðgengileg bæði fyrir bæjarfulltrúa sem og íbúa bæjarins. Í 74. gr. Sveitarstjórnarlaga er skýrt kveðið á um samskipti nefndarinnar við sveitarstjórnir. Bæjarstjóra ber að fara eftir þeim lögum. Annað er ámælisvert og brýtur í bága við góða og eðlilega stjórnsýsluhætti.
Íbúar í Reykjanesbæ eiga betra skilið,“ segir í bókuninni.