Stóri plokkdagurinn í Sandgerði og Garði á laugardag
Suðurnesjabær og Blái herinn hafa tekið höndum saman og sett markmiðið á að vel takist til með að hreinsa bæjarfélagið. Helgi Haraldsson, starfsmaður Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja og íbúi í Sandgerði, leggur einnig stór lóð á vogaskálarnar í skipulagningu.
Helgi hefur útbúið kort af báðum bæjarkjörnunum, kort fyrir Garð og fyrir Sandgerði (þau má sjá hér að ofan og í auglýsingu á baksíðu VF). Íbúar geta svo merkt sig inn á svæði inn á Facebook-síðunum „Íbúar Suðurnesjabæjar“, „Frétta og upplýsingasíða fyrir Sandgerðinga“ og „Garðmenn og Garðurinn“. Þannig væri bæði gaman og gagnlegt að sjá hvaða svæði við förum á mis við í hreinsuninni.
Við hvetjum íbúa og starfsmenn Suðurnesjabæjar til að taka þátt í STÓRA PLOKKDEGINUM og jafnvel taka vikuna í þetta enda hjálpar það eflaust til við að virða tveggja metra regluna og um leið má koma í veg fyrir hópamyndun, segir á heimasíðu Suðurnesjabæjar.
Plokk á Íslandi bendir á nokkur góð heilræði fyrir helgina:
Frábær hreyfing fyrir alla aldurshópa
Hafa hanska, plokkur og ruslapoka við höndina meðan á plokki stendur
Klæða sig eftir aðstæðum
Virðum tveggja metra regluna
Starfsmenn Suðurnesjabæjar munu einnig leggja sitt af mörkum, bæði í hreinsun og með því að útvega búnað. Hægt er að nálgast t.d. ruslapoka og hanska í áhaldahúsum sveitarfélagsins.
Blái herinn mun dreifa sekkjum meðfram stofnbrautum í báðum bæjarkjörnum þar sem plokkarar geta komið frá sér ruslinu sem plokkað er. Starfsmenn Suðurnesjabæjar og Blái herinn munu svo tæma og fjarlægja sekkina þegar átakið er búið.