Störfum fjölgar í Reykjanesbæ
Umskipti hafa orðið í atvinnulífi Suðurnesja og er einum erfiðasta kafla í atvinnumálum svæðisins á síðari tímum að ljúka. Brotthvarf varnarliðsins árið 2006 og efnahagshrunið 2008 lögðust á eitt um að þoka atvinnuleysinu í hæstu hæðir. Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun var það mest 15% í febrúar 2010 en var 5,3% í ágúst sl. Þetta kemur fram í umfjöllun í Morgunblaðinu í dag.
Kjartan Þór Eiríksson, framkvæmdastjóri Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, segir þegar búið í um þúsund af um tvö þúsund íbúðum á Ásbrú. Enn sé stefnt að því að svæðið verði fullnýtt árið 2017, líkt og ráðgert var þegar starfsemin þar hófst 2007. Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, segir lækkandi hlutfall atvinnulausra einkar jákvætt í ljósi þess að íbúum á Reykjanesi sé tekið að fjölga á ný.
Hjörtur Árnason, hótelstjóri Gistiheimilis Keflavíkur á Ásbrú, segir mikil tækifæri í ferðaþjónustu á svæðinu, ekki síst í 2-3 daga skoðunarferðum um Reykjanes.
Gistiheimilið hafi tvöfaldað fjölda herbergja úr 54 í 102 frá því í fyrrasumar og var nýtingin í september 72% sem þyki með allra besta móti.
Ragnheiður Hauksdóttir, rekstrarstýra Start Hostel, hóf nýverið rekstur hótels á Ásbrú sem tekur 50 gesti. Hún sér fyrir sér að tvöfalda framboðið á næstunni, slík sé eftirspurnin eftir gistingu nærri flugvellinum.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.