Stórframkvæmdir framundan í Leifsstöð
Fyrirhugað er að stækka Flugstöð Leifs Eiríkssonar á árunum 2004 til 2005 til að mæta auknum farþegafjölda sem fer um flugstöðina á ári hverju. Gert er ráð fyrir að kostnaður við stækkunina nemi um 600 til 700 milljónum króna. Á árinu 2001 fóru 1,4 milljónir farþega um flugstöðina og var fjöldi fluga á því ári 12,200. Árið 2025 er gert ráð fyrir að farþegar verði tæpar 4,5 milljónir og fjöldi fluga verði 34,200. Í dag eru flugvélastæði 14 talsins, en gert er ráð fyrir að þau verði 27 árið 2025. Fimmtán hundruð bílastæði eru nú við flugstöðina en árið 2025 er gert ráð fyrir tæplega 5 þúsund stæðum.
Í skýrslu sem Flugstöð Leifs Eiríkssonar hefur látið gera þar sem fjallað er um leiðir til að mæta auknum farþegafjölda og bæta þjónustustig farþega kemur fram að bilið á milli afkasta- og álagsstigs hafi aukist. Gert var ráð fyrir að álagsstigið yrði 1.100 farþegar á klukkustund árið 2010, en þeir hafa nú þegar náð þeim fjölda. Álag er á hraðri uppleið vegna fjölgunar brottfara flugvéla á háannatíma, en um helmingur farþega fer um flugstöðina milli klukkan 6 og 8 á morgnana. Á öðrum tímum dagsins nýtist flugstöðin verr.
Fyrirhugaðar aðgerðir á árunum 2004 til 2005 eru að stækka innritunarsal, stækka komusal, endurinnrétta landgang, fjölga bílastæðum, stækka komuverslun, bæta möguleika fyrir sjálfsafgreiðslu og stækka 3. hæð norðurbyggingar flugstöðvarinnar. Fyrirhugað er að skrifstofur verði fluttar þangað upp en það svæði sem í dag er nýtt undir skrifstofur á 2. hæð notað til að stækka brottfararsvæðið.
Það er mikill kostnaður fylgjandi því að mæta þessum álagstoppum með stækkunum byggingarinnar og því nauðsynlegt að grípa til fleiri aðgerða. Unnið er að því í samráði við hagsmunaaðila að dreifa álagi í flugstöðinni betur með það að markmiði að bæta þjónustu við farþega.
Að sögn Höskuldar Ásgeirssonar framkvæmdastjóra flugstöðvarinnar er mikill kostnaður því fylgjandi að mæta þessum álagstoppum með stækkun byggingarinnar því er nauðsynlegt að grípa til fleiri aðgerða. Unnið er að því í samráði við hagsmunaaðila að dreifa álagi í flugstöðinni betur með það að markmið að bæta þjónustu við farþega. Tillögur að stækkuninni verða lagðar fljótlega fyrir byggingar-, skipulags- og umhverfisnefnd Varnarsvæða.
„Ef við getum ekki dreift álagstoppunum betur en við gerum í dag þá er ljóst að sú fjárfesting sem flugstöðin þarf að ráðast í verði um 2,5 til 3 milljarðar króna á næstu árum, samkvæmt áætlunum. Það er því um brýnt hagsmunamál að ræða að dreifa álaginu á morgnana,“ sagði Höskuldur í samtali við Víkurfréttir.
Mynd: Framtíðarsýn 2025 af flugvallarsvæðinu.