Stórfellt kríudráp á Stafnesvegi
Ófögur sjón blasir við þeim eiga leið um Stafnesveginn en þar liggja dauðir kríuungar þvers og kruss á löngum kafla. Íbúar á Stafnesi segjast aldrei hafa séð þetta svona slæmt en engu líkara er en að þarna hafi skipulögð slátrun farið fram og skipta hræin mörgum tugum, jafnvel hundruðum.
Engum blöðum er um það að flétta að ekið hefur verið yfir ungana en þeir sækja í hitauppstreymið af veginum. Íbúar á Stafnesi segja það ekki óalgengt að ekið sé á einn og einn unga en síðustu daga hafi keyrt gjörsamlega um þverbak sem raun ber vitni og þessar myndir bera með sér. Í sumar virðist meira hafa verið um kríu við Norðurkot en oft áður þannig að talsverður fjöldi unga er á ferð. Vegfarendur eru vinsamlegast beðnir um að sýna tillitsemi og hægja á bílum á meðan ekið er framhjá kríuvarpinu.
VF-mynd/elg