Stórfelldur þjófnaður á tollfrjálsum varningi á Keflavíkurflugvelli
Lögreglan á Suðurnesjum handtók fyrr í mánuðinum þrjá karlmenn vegna stórfellds þjófnaðar á tollfrjálsum varningi frá flugþjónustufyrirtæki á Keflavíkurflugvelli. Tveir mannanna sem báðir voru starfsmenn hjá fyrirtækinu hafa viðurkennt þjófnaðinn og hinn þriðji viðurkenndi að hafa aðstoðað við að koma þýfinu í verð.
Rannsókn lögreglu hefur leitt í ljós að starfsmennirnir höfðu lengi stundað þjófnað, einkum á nautalundum og lambakjöti. Stálu þeir úr frystiklefa flugþjónustufyrirtækisins, annar um fjögurra til fimm ára skeið en hinn nokkru skemur. Þá höfðu þeir rofið innsigli á vögnum sem innihéldu tollfrjálsan varning sem fara átti um borð í flugvélar og látið greipar sópa. Húsleitir voru gerðar heima hjá starfsmönnunum og vitorðsmanni þeirra. Hjá öðrum hinna fyrrnefndu fundust átján sígarettukarton o.fl. og 168 kíló af nautakjöti í frystigeymslum vitorðsmannsins.
Þegar lögregla skoðaði upptökur úr öryggismyndavélum á svæðinu, í tengslum við rannsóknina kom í ljós að mennirnir höfðu verið stórtækir við þjófnaðinn því til þeirra sást bera úr kjöt út úr frystigeymslunni í kassavís. Annar þeirra hafði nýlokið við að stela 30 kössum af kjöti þegar lögreglan handtók hann. Hinn kvaðst hafa selt hluta af þýfinu á 2000 – 2500 krónur kílóið.
Ekki er vitað hversu miklu kjöti mennirnir stálu á þeim tíma sem athæfi þeirra stóð yfir en ljóst er að um gríðarlega mikið magn er að ræða.