Stórfelldur og skipulagður þjófnaður á sígarettum úr Fríhöfninni
Fjórir karlmenn hafa að undanförnu setið í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar lögreglunnar á Suðurnesjum á stórfelldum og skipulögðum þjófnaði á sígarettum úr fríhafnarverslunum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Er talið að þaðan hafi á undanförnum mánuðum verið stolið allt að 900 kartonum af sígarettum. Í tengslum við rannsóknina fór lögreglan á Suðurnesjum meðal annars í húsleitir á þremur stöðum á höfuðborgarsvæðinu, að fenginni heimild, og lagði hald á mikið magn af umræddu þýfi, þar á meðal ferðatöskur fulla af sígarettum.
Rannsókn málsins leiddi í ljós að mennirnir höfðu þann háttinn á að þeir keyptu flugmiða og skráðu sig í flugið án þess að fara í ferðina. Í stað þess fóru þeir í verslunina og tóku ófrjálsri hendi sígarettukartonin með skipulögðum hætti og settu þau niður í ferðatöskur sem þeir voru með á farangurskerru. Lögregla fann í fórum eins mannanna pöntunarlista þar sem væntanlegur kaupendur höfðu pantað sér sígarettur eftir tegundum.
Við skýrslutökur kom í ljós að a.m.k. einhverjir mannanna höfðu stundað stórfellt smygl á sígarettum til Íslands. Tveir umræddra manna hafa áður komið við sögu lögreglu. Þrír hinna handteknu hafa viðurkennt aðild sína.
Lögreglan á Suðurnesjum hefur rannsakað málið í góðri samvinnu við tollgæsluna og Isavia og er rannsóknin á lokastigi.