Stórbruni í bátasmiðju í Sandgerði
Mikill eldur kom upp í bátasmiðjunni Sólplasti í Sandgerði í kvöld. Tilkynning þessa efnis kom til lögreglunnar á Suðurnesjum klukkan tíu mínútur í ellefu.
Eldur mun hafa komið upp í trillu þar innan húss en verið var að vinna við logsuðu í honum í dag og talið líklegt að rekja megi eldsupptök út frá því.
Hilmar Bragi Bárðarson, fréttamaður Víkurfrétta er nýkominn á staðinn og mun flytja lesendum vf.is fréttir innan skamms. Meðfylgjandi mynd símsendi hann fyrir nokkrum mínútum frá slökkvistarfinu á staðnum sem mun hafa gengið vel. Eldur kom upp inni í smiðjunni sem er í húsalengju við Strandgötu í Sandgerði ásamt fleiri fyrirtækjum. Báturinn var færður út úr húsinu. Verulegar skemmdir eru á húsi og bátnum. Allt tiltækt slökkvilið Sandgerðis er á staðnum með aðstoð dælu- og kranabíls frá Brunavörnum Suðurnesja.