Stórbætt þjónusta við notendur strætó í Garði og Sandgerði
Í dag, fimmtudaginn 1. október, hefst ný strætóáætlun sem aðallega mun taka mið af þörfum íbúanna í Garði og Sandgerði. Með nýja kerfinu er verið að sameina áætlun Garð og Sandgerðis í eitt öflugt kerfi með níu ferðum á dag.
„Við erum jafnframt að auka við ferðir um helgar og tengja þetta við strætó Reykjanesbæjar. Núna verður ekið í gegnum Sandgerði og Garð inn í Reykjanesbæ um Hringbraut og að Reykjaneshöll í stað stoppistöðvar við SBK áður. Þannig er komin tenging við FS og Vatnaveröld. Þá erum við jafnframt með þessu að tengja notendur þjónustunnar við rútuferðir SBK til Reykjavíkur með stoppistöð við Myllubakkaskóla, þaðan sem stutt er í banka, sjúkrahús, verslanir og aðra þjónustu.
Við teljum að með tiltölulega hóflegum viðbótarkostnaði séum við að ná fram gríðarlegum samgöngubótum fyrir íbúana.,“ segir Ásmundur Friðriksson, bæjarstjóri í Garði.
Um er að ræða samstarfsverkefni SBK, Hópferða Sævars, Sveitarfélaganna Garðs og Sanderðis og Strætó Reykjanesbæjar undir kjörorðunum Hættum skutlinu - notum strætó. Um tilraunaverkefni er að ræða fram að áramótum en þá verður staðan metin út frá notkun íbúanna og ákvörðun tekin um framhaldið.
Fyrsta ferð frá Reykjaneshöll er kl. 6:14 á morgnana og síðasta ferð kl. 22:57. Um helgar er fyrsta ferð kl. 07:35 og síðasta kl. 22:50. Áætlunina er hægt að kynna sér nánar í auglýsingu í blaðinu í dag. Á virkum dögum eru níu ferðir og fjórar hvorn daginn um helgar. Alls eru þetta því 53 ferðir á viku að viðbættum skólabíl.
Við þessa nýbreytni verður efnt til leiks í strætistvögnum þar sem farþegar fá miða sem sem þeir fylla út og geta skilið eftir í vögnunum. Verðlaunin eru ekki af verra taginu, hvorki meira né minna en utanlandsferð fyrir tvo og ýmislegt fleira.
Þá er rétt að taka fram að þessar strætisvagnaferðir eru fríar.
---
Ljósmynd/Oddgeir Karlsson.