Stóra jólaskreytingamálið: Jólaskreytingar nú eins og 2007
Jólaskreytingar Reykjanesbæjar eru í ár með svipuðum hætti og árið 2007 segir Guðlaugur H. Sigurjónsson forstöðumaður umhverfis- og skipulagssviðs Reykjanesbæjar í viðtali við síðdegisútvarp Rásar 2.
Í viðtalinu sagði Guðlaugur að skorið hafi verið niður um 25-30 prósent í jólaskreytingum. Hann sagði í viðtalinu að Reykjanesbær skreyti mjög mikið og því sjái vart högg á vatni þó svo dregið hafi verið úr skreytingum nú. Hann segir að bæjarfélagið hafi séð færi á að spara aðeins í jólaskreytingum. Hann sagði að þrátt fyrir minna af opinberum skreytingum þá séu bæjarbúar duglegir að skreyta og hvatti landsmenn til að koma til Reykjanesbæjar og skoða allt jólaskrautið og jólaljósin.
Undir þetta tóku þáttastjórnendur í síðdegisútvarpinu sem sögðu að á Reykjanesi væri áberandi mikið af jólaskreytingum.