Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Stóra flugskýlinu breytt: Risaverkefni fyrir iðnaðarmenn á Ásbrú
Mánudagur 12. október 2009 kl. 16:57

Stóra flugskýlinu breytt: Risaverkefni fyrir iðnaðarmenn á Ásbrú


Auglýst verður eftir iðnaðarmönnum á allra næstu dögum til að ráðast í umfangsmiklar breytingar á stóra flugskýlinu á Ásbrú (Keflavíkurflugvelli) í tengslum við komu hollenska fyrirtækisins E.C.A. Program Ltd. Verkefnið er bæði mannaflsfrekt og mun kosta allt að 4,5 milljarða króna. Það mun því koma sem vítamínssprauta inn í atvinnulífið á Suðurnesjum.

Á næstu dögum verður gengið frá samningum við Keflavíkurflugvöll ohf. um leigu á stóra flugskýlinu. Hjörtur M. Guðbjartsson, pólitískur ráðgjafi, sem kom að verkinu segir það unnið í nánu samstarfi við bæði samgönguráðuneytið og utanríkisráðuneytið. Á bakvið verkefnið sé fullur pólitískur vilji stjórnvalda og öðruvísi hafi ekki verið hægt að landa því.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Fyrstu tvær þoturnar á vefum E.C.A. Program Ltd. koma til landsins eftir 9 mánuði og síðan koma tvær þotur á mánuði eftir það, þar til þær eru orðnar 18 talsins.
Það er ekki rétt sem fram kom í Morgunblaðinu í morgun að ÍAV þjónusta stæði á bakvið komu fyrirtækisins til landsins með sína starfsemi. Stofnað verður sérstakt fyrirtæki um verkefnið hér á landi.

Hjörtur segir að til verkefnisins við stóra flugskýlið þurfi allar tegundir iðnaðarmanna en ráðast þarf í miklar endurbætur á stóra flugskýlinu á Ásbrú (Keflavíkurflugvelli). Ekki sé ennþá að fullu ljóst hvað þurfi af öðrum mannvirkjum á svæðinu.

E.C.A. Program Ltd. mun ráða til sín íslenska flugvirkja og aðra starfsmenn og þá sé gert ráð fyrir fjölmörgum afleiddum störfum en talan 150 til 200 starfsmenn hefur verið nefnd við þjónustu flugfotans, sem auk 18 þotna hefur að geyma þyrlur sem hefðu heimahöfn á Ásbrú. Þá er gert ráð fyrir að E.C.A. Program Ltd. semji við Keili háskólasamfélag um ýmis hátæknistörf á vegum félagsins.


Hjörtur segir að mikil vinna marga undanfarna mánuði liggi að baki því að fá þetta fyrirtæki til landsins með sína starfsemi. Fyrirtækið sérhæfi sig í varnaræfingum fyrir Atlantshafsbandalagið, auk sérhæfingar í rannsóknum og tækniþróun á sviði loftvarna og annast þjálfun fyrir aðildarþjóðir NATO um alla Evrópu. Þá leigir fyrirtækið NATO þyrlur til ýmissa verkefna. Áætlað er að tekjur ríkissjóðs vegna starfseminnar verði 700-800 milljónir króna á ári.

Á næstu vikum verður jafnframt ráðist í að fá flugrekstrarleyfi fyrir starfsemina á Íslandi, en það ferli tekur marga mánuði að sögn Hjartar.

Myndir: Stóra flugskýlið á Ásbrú. Ljósmyndir: Oddgeir Karlsson