Stór hluti byggðarinnar í Grindavík fallið niður sigdal
Rannsóknareining í eldfjallafræði og náttúruvá við Háskóla Íslands hefur birt dagsgamalt kort af Grindavíkurbæ sem sýnir það svæði sem hefur fallið niður um ~1 metra í hamförunum síðan á föstudag. Þar má sjá að vestasti hluti byggðarinnar í Grindavík hefur fallið niður um einn metra í sigdal sem verið hefur í fréttum dagsins. Samkvæmt myndum sem rannsóknareiningin birtir er þetta stór hluti byggðarinnar.
Stuttu örvarnar vísa á gömlu misgengin sem hreyfðust á ný eftir atburði föstudagsins. Stóra örin vísar á svæðið sem hefur fallið niður (um ~1 m).
Þá birtir rannsóknareiningin einnig tvær loftmyndir, aðra frá 1954 og hina eins og Grindavík er í dag. Loftmynd frá árinu 1954 sýnir að misgengin sem afmarka sigdalinn sem liggur í gegnum Grindavík voru til staðar þá og sennilega hefur þessi sigdalur myndast í Sundhnúkagosinu fyrir meira en 2000 árum og núverandi virkni virkjaði þessi misgengi á ný og stækkað/dýpkaði sigdalinn. Svæðið á milli vestur- og austur-marka sigdalsins (sýnt með rauðu brotalínunum) féll niður í þeim umbrotum, segir í færslu eldfjallafræði- og náttúruvársérfræðinganna.
Seinni myndin sýnir legu þessara gömlu misgengja á korti af Grindavík eins og hún er í dag. Nýju fersku sprungurnar eru í nákvæmlega sama fari og þær gömlu.