Stór eðla handsömuð á götu í Keflavík
Birkir Örn Skúlason, 11 ára strákur í Keflavík, varð heldur betur hissa þegar hann ók eftir Heiðarbóli í Keflavík nú síðdegis með móður sinni. Eðla, um einn metri á lengd, birtist skyndilega á götunni framan við bílinn.
Birkir Örn sagði í samtali við Víkurfréttir í kvöld að eðlan hafi verið alveg sallaróleg. Þau hafi strax hringt í lögregluna sem kom fljótlega á svæðið. Á meðan hafi þau fylgst með eðlunni sem var hin rólegasta, enda örugglega ekki vön ferðalögum utandyra í íslensku loftslagi.
Lögreglan kom á staðinn og handsamaði eðluna en það tók samt nokkurn tíma. „Fyrst ætluðu þeir að breiða teppi yfir hana en þá skaust hún undir bíl og kom sér síðan fyrir ofan á dekki á bíl og festi sig þar rækilega en að lokum tókst að losa hana“, segir Birkir Örn. Farið var með eðluna til Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja, þar sem dýrinu verður fargað, enda ólöglegt að halda eðlur sem þessar á Íslandi.
Birkir Örn fylgdist spenntur með aðförum lögreglunnar við að veiða eðluna en gaf sér þó tíma til að hlaupa heim og ná í myndavél. Hann tók myndirnar sem eru með þessari frétt.