Stopp-hópurinn Suðurnesjafólk ársins
- Þrýstu á um úrbætur á Reykjanesbraut
Þrýstihópurinn „Stopp - hingað og ekki lengra!“ eru menn ársins 2016 á Suðurnesjum að mati Víkurfrétta. Hópurinn var stofnaður á samfélagsmiðlinum Facebook snemma í júlí 2016. Markmið hópsins er að þrýsta á að lokið verði við tvöföldun Reykjanesbrautar og úrbætur gerðar á umferðarmannvirkinu í kjölfar banaslyss sem varð á Reykjanesbraut við Hafnaveg. Í þrýstihópnum eru 16.000 einstaklingar sem lögðust á árarnar í baráttu fyrir betri Reykjanesbraut. Á árinu munu verða gerð tvö hringtorg á Reykjanesbraut, við Þjóðbraut og Aðalgötu og þá er tvöföldun brautarinnar frá Njarðvík inn að flugstöð komin á Samgönguáætlun. „Þegar við hér á Suðurnesjum stöndum saman og róum í sömu átt gengur okkur ótrúlega vel. Samstaða í þessu verkefni var lykill að árangri sem við náðum,“ segir Ísak Ernir Kristinsson en hann og Guðbergur Reynisson, stofnendur hópsins tóku við viðurkenningu Víkurfrétta og fara yfir málin í viðtali í blaðinu og í sjónvarpsþætti vikunnar sem sýndur verður á Hringbraut í kvöld klukkan 20:00 og 22:00.