Stolt norska flughersins á Keflavíkurflugvelli
Loftrýmisgæsla Atlantshafsbandalagsins við Ísland er hafin að nýju með komu norska flughersins. Um 130 liðsmenn norska flughersins taka þátt í verkefninu og til viðbótar starfsmenn frá stjórnstöð NATO í Uedem, Þýskalandi (Combined Air Operations Center). Flugsveitin kom til landsins með fjórar F-35 orrustuþotur.
Þoturnar fjórar eru stolt norska flughersins en hver þeirra kostar um þrettán milljarða króna og því er flugflotinn á Keflavíkurflugvelli um 50 milljarða króna virði.
Loftrýmisgæslan verður í samræmi við loftrýmisáætlun Atlantshafsbandalagsins fyrir Ísland og fyrirkomulagið verður með sama hætti og áður.
Flugsveitin verður með aðsetur á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Gert er ráð fyrir að verkefninu ljúki fyrir lok mars.
Landhelgisgæsla Íslands annast verkefnið í samvinnu við Isavia.
Myndefnið er frá norska flughernum er tekið upp á Keflavíkurflugvelli fyrir helgi.