Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Stofnun Vinafélags Krýsuvíkurkirkju - Iðnskólinn í Hafnarfirði byggir nýja kirkju
Miðvikudagur 27. janúar 2010 kl. 11:14

Stofnun Vinafélags Krýsuvíkurkirkju - Iðnskólinn í Hafnarfirði byggir nýja kirkju

Miðvikudaginn 14. janúar 2010 var Vinafélag Krýsuvíkurkirkju stofnað af nokkrum einstaklingum og fulltrúum félaga og stofnana sem vilja leggja sitt af mörkum svo að hægt verði að endurreisa Krýsuvíkurkirkju. Markmið Vinafélagsins er að gangast fyrir endurbyggingu Krýsuvíkurkirkju í samræmi við upprunalegt útlit samkvæmt heimildum þjóðminjavörslu um útlit, innviði, handbragð og efnivið.

Vinafélagið mun kostgæfa að viðhalda og hlúa að kirkjunni í einu og öllu á meðan það verður starfrækt. Þegar endurreisn hefur átt sér stað verður Krýsuvíkurkirkja vígð og henni settur máldagi.
Skipuð var bráðabirgðastjórn sem starfar fram að fyrsta ársfundi félagsins næsta haust. Sérstök verkefnisstjórn verður skipuð innan skamms sem mun annast allt sem snýr að smíði kirkjunnar. Verkefnið nýtur velvilja Þjóðminjasafnsins, Þjóðkirkjunnar, Húsafriðunarnefndar, Hafnarfjarðarbæjar og annarra aðila sem tengdust kirkjunni í Krýsuvík.
Iðnskólinn í Hafnarfirði hefur boðist til að byggja kirkjuna á næstu tveimur árum á lóð skólans og verður hún flutt á sinn stað að smíðinni lokinni. Smíði kirkjunnar verður liður í að kenna nemendum skólans rétt handbrögð og vinnulag við smíði húsa af gamalli gerð. Verkið verður unnið samkvæmt ítrustu kröfum undir faglegri handleiðslu sérfræðinga sem hafa mikla reynslu á þessu sviði.
Áætlað er að kostnaður við smíði kirkjunnar verði um 9 milljón kr og má reikna með að efniskaup og annar tilfallandi kostnaður nemi helmingi þeirrar fjárhæðar og að framlag Iðnskólans jafnist á við þann hluta.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024



Mikill áhugi hefur myndast um endurreisn kirkjunnar og hafa margir boðist til að leggja fram fjármuni, sérfræðikunnáttu og aðstöðu. Facebook síðan „Endurreisum Krýsuvíkurkirkju“ er til vitnis um þetta og eru skráðir aðilar rúmlega 3200. Á síðunni hafa komið fram margvíslegar hugmyndir sem lúta að endurreisn kirkjunnar. Það er von stjórnar Vinafélagsins að allir þessir kraftar geti sameinast undir merkjum Vinafélagsins, því þá má telja fullvíst að sameiginlegu marki verði farsællega náð.
Þeir sem vilja gerast stofnfélagar Vinafélags Krýsuvíkurkirkju geta gert það með því að leggja 1500 kr stofnframlag inn á söfnunarreikning félagsins í Íslandsbanka nr. 545-14-402800, kt. 620110-1160, fram til 27. febrúar næstkomandi. Færist þá nafn viðkomandi inn á lista yfir stofnendur Vinafélagsins. Þeim sem vilja styrkja verkefnið með hærra fjárframlagi er frjálst að gera það með sama hætti.
Stofnskrárbók Vinafélags Krýsuvíkurkirkju liggur frammi í Strandbergi, safnaðarheimili Hafnarfjarðarkirkju og þar geta þeir sem vilja skrá sig með eigin hendi í bókina gert það.
Allir sem vilja leggja þessu verkefni lið geta gerst félagar, hvort sem um er að ræða einstaklinga, félög, fyrirtæki, stofnanir eða aðra lögaðila.
Vinafélag Krýsuvíkurkirkju byggir á sjálfboðaliðagrunni og þeir sem vilja leggja fram þekkingu sína, vinnuframlag eða styðja félagið á annan hátt geta komið að máli við stjórnarmenn.

Bráðabirgðastjórn Vinafélags Krýsuvíkurkirkju skipa: Jónatan Garðarsson formaður, Sigurjón Pétursson varaformaður, Erna Fríða Berg gjaldkeri, Björn Pétursson ritari, Sveinn Sveinsson meðstjórnandi. Varastjórn skipa: Þórhallur Heimisson, Gunnþór Ingason og Jóhannes Einarsson.



Síðasta myndin sem tekin var var Krýsuvíkurkirkju - Ljósmynd: Gunnar Gestur.