Stofnun Reykjanesgarðs rædd á aðalfundi Ferðamálasamtaka Suðurnesja
Aðalfundur Ferðamálasamtaka Suðurnesja var haldinn þriðjudaginn 24. ágúst s.l. Á fundinum var lögð fram skýrsla stjórnar FSS og Markaðsstofu Suðurnesja. Formaður lýsti ánægju sinni yfir mikilli grósku í starfi Ferðamálasamtakanna og Markaðsstofunnar á árinu.
Þar bar hæst yfirtaka upplýsingamiðstöðvarinnar í Leifsstöð og bókunarþjónusta þar, nýtt aðgengi fyrir alla að Gunnuhver, sjónskífa á Keili, aðgengi fyrir alla að gamla Garðskagavitanum, ný heimasíða, sýningahald og mikil útgáfustarfsemi.
Verkefnalisti fyrir árið 2011 var lagður fram og ræddur. Stofnun Reykjanesgarðs ber þar hæst en Ferðamálasamtökin hafa sent erindi til bæjarstjórna Reykjanesbæjar og Grindavíkurbæjar um slíkan garð sem væri á svæði sem liggur frá Hafnabergi að Háleyjabungu. Hugmyndin er að fá þetta svæði útnefnt af UNESCO og European Geoparks sem jarðminjagarður eða Geopark.
Stóra verkefnið hjá Markaðsstofunni er bókunarþjónustan í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og rekstur upplýsingamiðstöðvarinnar þar auk sýninga og útgáfumála.
Eftirtaldir voru kosnir í nýja stjórn samtakanna til tveggja ára: Kristján Pálsson formaður, Reynir Sveinsson, Ásgeir Hjálmarsson, Óskar Sævarsson, Valgerður Guðmundsdóttir, Hartmann Kárason, Sigurður Hilmarsson og Helga Ingimundardóttir.
Ljósmynd: Ellert Grétarsson