STOFNFJÁRBRÉF SPARISJÓÐSINS Í KEFLAVÍK UPPSELD
Sparisjóðurinn í Keflavík hefur nú aukið stofnfé sitt í 300 milljónir króna með útgáfu nýrra stofnfjárbréfa að fjárhæð 105 milljónir króna og er svo komið að allt stofnfé er selt. Fjöldi stofnfjáreigenda er nú nærri fjögur hundruð og skipta þeir á milli sín 2000 hlutum, hverjum að nafnvirði kr. 150.000.00. Sparisjóðurinn hefur með þessum hætti skapað sér sérstöðu meðal sparisjóða, því eignaraðild er óvíða meiri og dreifðari. Að sögn Geirmundar Kristinssonar, Sparisjóðsstjóra var markmiðið með stofnfjárútboðinu var að gefa viðskiptavinum Sparisjóðsins og öðrum fjárfestum kost á góðri ávöxtun með eignaraðild í sjóðnum. Ákveðið var að fara þá leið að fá heimild fyrir því að fjárfesting í stofnfjárbréfum gæfi skattaafslátt til að standa jafnfætis öðrum innlendum fjárfestingarkostum. Góð viðbrögð sýna að viðskiptamenn Sparisjóðsins telja stofnfjárkaup góða og trausta fjárfestingu, enda hafa stofnfjárbréf gefið góða ávöxtun hin síðustu ár. Allt bendir til að afkoma Sparisjóðsins verði með betra móti þetta árið og að fyrirtækið fari með gott veganesti inn í næstu öld.