Stofna menntunarsjóð í Garðinum
Á hátíðarfundi bæjarstjórnar í Garði var samþykkt einróma að stofna menntunarsjóð. Bæjarstjórnin setur eina milljón í sjóðinn sem er í minningu Sr. Sigurðar B. Sívertsens sem stofnaði barnaskólann í Garði árið 1872.
Sr. Sigurður gegndi prestsembætti að Útskálum í hálfa öld frá 1831 til 1887 og var mikill áhugamaður um framfarir og menningarmál. Hann stofnaði barnaskólann í Garði árið 1872, sem er einn þriggja elstu barnaskóla landsins er starfað hafa frá stofnun. Í fyrstu var skólinn starfræktur að Gerðum en var árið 1887 fluttur að Útskálum. Hann stóð fyrir byggingu Útskálakirkju árið 1861 og gaf margt góðra muna til kirkjunnar. Sr. Sigurður var mikill brautryðjandi og hugsjónamaður á mörgum sviðum. Hann lét margt annað gott af sér leiða styrkti meðal annars fátæk börn og unglinga til náms og lagði stund á lækningar meðal sóknarbarna sinna. Sr. Sigurður var athafnasamur fræðimaður og rithöfundur. Liðlega fjörutíu ritsmíðar eftir hann komu út á prenti á meðan hann lifði, þar með taldar blaðagreinar, útfararræður og við andlát sitt lét hann eftir sig mikið safn handrita. Í því er meðal annars að finna Suðurnesjaannál hans sem síðar var gefinn út og er tvímælalaust þekktasta ritsmíð hans enda stórmerkileg heimild. Sr. Sigurður S. Sívertsen, prestssonur á Útskálum, fæddur 15. júní 1843, vígðist 25 ára til Kirkjuvogskirkju, sem aðstoðarprestur föður sins en lést skömmu eftir vígsluna.
Af www.utskalar.is
Mynd: Bæjarstjórn Garðs á hátíðarfundi í tilefni 100 ára afmælis sveitarfélagsins. VF-mynd/IngaSæm