Stofna Hollvinafélag FS
Unnið er að undirbúningi á stofnun Hollvinafélags Fjölbrautaskóla Suðurnesja og verður fyrsti aðalfundur þess haldinn þriðjudaginn 29. nóvember næstkomandi klukkan 20:00 á sal Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Fjörutíu ára afmæli skólans var fagnað fyrr í haust. Bergný Jóna Sævarsdóttir, einn skipuleggjenda að stofnun félagsins, segir það hafa legið vel við að stofna Hollvinafélagið í tengslum við afmælið. „Undirbúningur að stofnuninni hefur gengið vel og standa vonir til að félagið verði mikil lyftistöng bæði fyrir skólann og samfélagið á Suðurnesjum,“ segir hún.
Meðal markmiða með stofnun Hollvinafélagsins er að styðja við uppbyggingu skólans og efla hag hans, efla og viðhalda tengslum eldri nemenda við skólann og að efla tengsl skólans við atvinnulíf og samfélag og að efla samfélagslega ábyrgð. Fyrrum nemendur og starfsmenn FS eru hvattir til að skrá sig í félagið og fylgjast með framgangi mála á Facebook síðu félagsins Hollvinir Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Vonir standa til að heimasíða félagsins líti dagsins ljós innan tíðar.