Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Stofna félagið Dagbjart gegn einelti
Dagbjartur Heiðar Arnarsson svipti sig lífi 11 ára gamall. Hann varð fyrir einelti alla sína skólagöngu.
Fimmtudagur 18. febrúar 2016 kl. 06:00

Stofna félagið Dagbjart gegn einelti

Dagbjartur - félag gegn einelti var stofnað á dögunum og hafa tæplega fjögur þúsund manns „líkað“ við síðu félagsins á Facebook. Félagið var stofnað í minningu Dagbjarts Heiðars Arnarssonar, drengs úr Sandgerði, sem svipti sig lífi haustið 2011, þá aðeins 11 ára gamall. Dagbjartur fæddist með alvarlegan hjartagalla og var auk þess með einhverfu og ADHD. Hann var lagður í einelti alla sína skólagöngu. Fæðingardagur Dagbjarts var 15. febrúar og var félagið stofnað á 16 ára afmælisdegi hans.
 
Að sögn Jakobs S. Jónssonar, eins stofnanda félagsins var stofnun þess í samráði við fjölskyldu Dagbjarts heitins og er móðurafi hans í bráðabirgðastjórn. „Þessi miklu viðbrögð sem stofnun félagsins vakti segir okkur að það er þörf á að halda umræðunni um einelti gangandi. Þetta er samfélagsmein sem verður að vinna bug á,“ segir Jakob. Hann segir að í nokkur ár hafi verið uppi hugmyndir um það hvernig hægt yrði að halda minningu Dagbjarts á lofti. „Við veltum því fyrir okkur hvernig hægt yrði að vinna úr þeim sorglega atburði sem fráfall Dagbjarts var á þann hátt að hægt verði að læra og gera samfélagið betra.“ Jakob bendir á mál sem upp kom í Fellaskóla í Breiðholti í vetur þar sem barn sagði að það væri betra að deyja en að mæta í skólann. „Þá fannst okkur við þurfa að gera eitthvað.“
 
Jakob segir starfsemi félagsins enn vera í mótun en að ekki sé ætlunin að ganga inn í einstök eineltismál. „Hins vegar ætlum við að halda uppi umræðu um einelti, ekki aðeins í skólum heldur einnig á vinnustöðum. Það er allt of algengt að fólk verði fyrir einelti. Því tel ég að það sé mjög gott að hafa starfandi samtök sem fólk getur leitað til þó ekki sé nema til að ræða málin. Við ætlum einnig að halda málþing og sinna ýmsu fræðslustarfi.“
 
Félagið Dagbjartur mun ekki taka afstöðu til mismunandi áætlana gegn einelti í skólum, að sögn Jakobs. „Það eina sem við viljum sjá er árangur, að börn geti mætt í skólann án þess að hafa áhyggjur af því að verða fyrir einhvers konar aðkasti. Sömuleiðis að fólk geti mætt í sína vinnu án þess að hafa áhyggjur af því að vera fyrir aðkasti vinnufélaga. Við viljum að samfélagið sé þannig að fólk hafi allar forsendur til að láta sér líða vel. Við erum öll mismunandi og eigum að fá að vera það,“ segir Jakob.
 
Upphaflega var hugmyndin að stofna félagið ef 200 manns eða fleiri myndu „líka við“ síðu þess á Facebook. Að sögn Jakobs tók það ekki nema klukkutíma og er fjöldinn nú orðinn tæplega 4000. Um miðjan mars verður svo haldinn formlegur stofnfundur og eru allir velkomnir. 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024