Stofna félag um einkarekstur skurðstofa á Suðurnesjum
„Við erum að gera þetta út af ástandinu á Suðurnesjum og viljum halda skurðþjónustu á svæðinu,“ segir Adda Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri nýs félags sem mun heita Skurðstofur Suðurnesja ehf. Undirbúningur að stofnun félagsins er í fullum gangi.
Tilgangurinn er að leigja skurðstofur af HSS og veita þar skurðstofuþjónustu. Eigendur og starfsmenn yrðu, ásamt öðrum, starfsmenn á skurðstofum HSS sem sagt hefur verið upp störfum á HSS frá og með 1. maí næstkomandi. Félagið hyggst með starfsemi sinni halda skurðstofunum opnum í þágu fæðingardeildar HSS sem og fyrir önnur skurðstofutengd verkefni sem leitað verður með til félagsins.
Formleg beiðni hefur þegar farið til Framkvæmdarstjórnar Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja og afrit sent til Heilbrigðisráðuneytis. Stefnt er að gera þjónustusamning við HSS. Adda sagði að þetta gæti verið góð leið og jafnframt ódýrari fyrir ríkið því það myndi eingöngu greiða fyrir hverja aðgerð og þyrfti ekki að hugsa um rekstur skurðstofanna. Þá fengi HSS leigutekjur.
Aðspurð hvernig nýja félagið gæti rekið skurðstofur en ekki HSS sagði hún hugmyndina að fullnýta tíma sem væru ekki nýttir til að leigja stofurnar skurðlæknum sem gætu gert hinar ýmsu skurðaðgerðir, t.d. lýtaaðgerðir sem væru mun ódýrari á Íslandi en í öðrum löndum.
„Félagið er stofnað til þess að koma í veg fyrir alvarleg áhrif á þjónustu fæðingardeildarinnar og á þjónustu á skurðstofum sem annars þarf að sækja út fyrir svæðið. Félagið vill auk þess hindra tap á mikilvægum heilbrigðisstörfum af svæðinu.
Markmið þessa nýja félags verður að halda skurðstofum á Heilbrigðisstofnuninni opnum og veita þannig nauðsynlega stuðningsþjónustu við fæðingardeildina sem þar er rekin. Þá er ætlunin að kynna fæðingardeildina á HSS og þá frábæru aðstöðu sem þar býðst fyrir foreldrum,“ segir í tilkynningu frá félaginu.