Stöðvuðu kannabisræktun í fjölbýlishúsi
Kannabisræktun var stöðvuð í Reykjanesbæ í gærkvöld, þegar lögreglan á Suðurnesjum fór í húsleit í fjölbýlishúsi að fengnum dómsúrskurði. Húsráðandi, karlmaður á fertugsaldri, vísaði lögreglumönnum á herbergi í íbúðinni þar sem ræktun var í fullum gangi. Í herberginu hafði verið komið fyrir gróðurhúsatjaldi og inni í því var talsvert af kannabisplöntum, bæði fullvöxnum og minni. Í skáp í sama herbergi voru einnig nokkrar plöntur í uppvexti.
Maðurinn neitaði sölu fíkniefna, en kvaðst hafa ræktað plönturnar til eigin neyslu og til að gauka að vinum sínum.