Stöðvaður með falsað vegabréf
Albani var stöðvaður með falsað vegabréf í Leifsstöð seinni partinn í gær. Samkvæmt upplýsingum frá sýslumannsembættinu á Keflavíkurflugvelli er yfirheyrslum yfir manninum nýlokið. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er viðbúið að hann verði kærður fyrir skjalafals en mál hans var tekið fyrir í héraðsdómi Reykjaness um klukkan hálf þrjú í dag.
Mbl.is hefur eftir Eyjólfi Kristjánssyni, fulltrúa sýslumanns, að maðurinn, sem er 22 ára, hafi komið frá París og hugðist einungis millilenda hér á leið sinni til Kanada. Eyjólfur segir að við hefðbundið eftirlit hafi vaknað grunsemdir um að ekki væri í lagi með vegabréfið. Við nánari skoðun kom í ljós að skipt hafði verið um mynd í því. Reiknað er með að dómur verði kveðinn upp í máli mannsins síðar í dag.
VF-mynd/úr safni