Stöðugildi í barnavernd verði aukin
Margrét Þórarinsdóttir, bæjarfulltrúi Miðflokksins í bæjarstjórn Reykjanesbæjar, hvetur meirihlutann til að huga að því að auka við stöðugildi í barnavernd Reykjanesbæjar fyrir næstu fjárhagsáætlun. Margrét hefur áhyggjur af fjölgun barnaverndarmála í bæjarfélaginu og að álagið sé mikið á félagsráðgjafa.
„Enn og aftur sjáum við aukningu á milli mánaða. Í september 2020 bárust 56 tilkynningar vegna 45 barna og fjöldi nýrra mála í könnun voru 25 mál en á sama tíma í fyrra voru tilkynningarnar 45 vegna 44 barna og fjöldi nýrra mála í könnun voru ellefu.
Þetta eru sláandi tölur og veldur mér hugarangri en á þessum tölum sjáum við að ný mál voru 25 miðað við ellefu mál á sama tíma í fyrra. Eins og ég hef bent á áður þá eru barnaverndarmál þau erfiðustu mál innan félagsþjónustunnar og oft á tíðum er álagið mikið. Miðað við þessar tölur þá verður að fjölga stöðugildum á félagsráðgjöfum í Barnavernd enda sýndi það sig þegar álagsmæling var gerð á sviðinu að vinnuálag er mikið og því alltaf hætta á að fólk fari í kulnun. Ég hvet því enn og aftur meirihlutann að huga vandlega að auka stöðugildi í Barnavernd fyrir næstu fjárhags-áætlun.“