Stjórnvöld vilja að Wilson verði dreginn burt
Enn standa viðræður yfir á milli umhverfisráðuneytis og eigenda Wilsons Muuga um hver eigi að bera kostnað af því að fjarlægja skipið úr Hvalsnessfjöru.
Fram kom í frétt RÚV í morgun að íslensk stjórnvöld vilja að skipið verði dregið á flot. Til þess að það sé hægt þarf að þétta skipið þar sem það er rifið og fá í það flot. Þá þarf að vera stórstreymt en það verður næst eftir tæpan mánuð. Þó það sé áhættusamara að draga skipið á flot en að búta það niður, þá er það hreinlegra og veldur minna raski, sagði Einar Sveinbjörnsson, aðstoðarmaður umhverfisráðherra í samtali við RÚV.
Á vef Umhverfisstofnunar sagði fyrir helgi að Blái herinn hafi mokað upp um 17 tonnum af olíusmituðu þangi úr fjörunni við strandsstað. Þanginu var mokað upp í fiskikör og svo flutt burtu með þyrlu.
Gottskálk Friðgeirsson, sem hefur haft umsjón með verkinu fyrir hönd Umhverfisstofnunar, sagði á síðu stofnunarinnar að verkinu sé nánast lokið en þó hafi verið ákveðið í samráði við Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja að fá Bláa herinn til að fjarlægja síðustu leifar olíusmitaðs þangs svo engin ummerki um olíumengun verði eftir á staðnum.
H: www.ruv.is og www.ust.is
VF-mynd/elg