Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Stjórnvöld standa ekki í vegi fyrir álveri í Helguvík
Föstudagur 28. mars 2008 kl. 18:04

Stjórnvöld standa ekki í vegi fyrir álveri í Helguvík

Iðnaðarráðherra segir að stjórnvöld muni ekki standa í vegi fyrir byggingu álvers í Helguvík, til þess þurfi lagabreytingu en segir þó að framkoma Norðuráls mætti vera betri.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Össur Skarphéðinsson sagði þetta á opnum fundi í Keflavík í gærkvöldi. Hann sagði að hann hafi ekki vitað um fyrstu framkvæmdir í Helguvík á dögunum og það hafi honum þótt óeðlilegt í ljósi þess að hann er iðnaðarráðherra.

Hvað varðar ákvörðun um byggingu álvers í Helguvík þá sé málið fyrst og fremst í höndum sveitarfélaga og fyrirtækja þó svo fleiri þættir komi þar að eins og orkuöflun- og flutningur.
Össur sagði að mörg erlend fyrirtæki hafi haft samband við íslensk stjórnvöld varðandi fyrirtækjarekstur og þar væri græn orka eitt stærsta atriðið. Þar væru Suðurnesjamenn í fremstu víglínu og framtíðin því björt. Össur nefndi þar nokkur dæmi um fyrirtæki í orkufrekri starfsemi eins og gagnaver, pappírsframleiðslu, metanól og slípiefni. Lækkun tekjuskatts úr 18 í 15% hafi einnig haft mikil áhrif á aukinn áhuga erlendra fyrirtækja sem horfi hingað til lands. „Það er orkukreppa í heiminum og því eðlilegt að horft sé hingað. Það er mikilvægt að Suðurnesjamenn vinni saman og selji ekki orkuna of ódýrt. Í öllum svona málum kemur alltaf stórum þætti sem sé samvinna sveitarfélaga á Suðurnesjum. Ég tel auðvitað í þeim efnum eina vitið og lang skynsamlegast að þau sameinist. Þannig væri svæðið enn sterkara“.

Iðnaðarráðherra sagði að möguleikarnir væru gríðarlegir í tengslum við græna orku, háskólann á gamla varnarsvæðinu og mikinn vöxt í kringum flugstarfsemi við Leifsstöð. Þar myndi störfum fjölga gríðarlega mikið samfara auknum farþegafjölda á næstu 5-10 árum.

„Það er ljóst að hagvöxtur verður hvergi meiri en hér á Suðurnesjum á næstunni. Með álveri munu skapast launabetri störf en hér hafa verið í boði að undanförnu en svo þarf að hugsa enn lengra fram í tímann hvað varðar öll þau störf sem verða til í og við Leifsstöð“.

Kristján Gunnarsson, framkvæmdstjóri Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis sagði á fundinum í gær eftir þrumuræðu bloggmeistarans og iðnaðarráðherra, að hann væri ánægður að heyra hvað hann blési miklar glæður í framtíðina á Suðurnesjum. „Ég þakka þér þennan skilyrðislausa stuðning við álverið og bendi á að þar verða til mörg störf fyrir konur. Ég treysti því líka að þú standir með okkur í þessum málum,“ sagði Kristján.

Mynd: Það fór vel á með Össuri Skarphéðinssyni, Skúla Skúlasyni, starfsmannastjóra Norðuráls og Jóni Gunnarssyni, stjórnarformanni Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Ljósmynd: PKET