Stjörnuvitlaust veður á Fagradalsfjalli og bálhvasst á Reykjanesbraut
Á Fagradalsfjalli voru austan 27 m/s kl. 13:00 í dag og hviður voru að fara í 39 m/s. Þar er því stjörnuvitlaust veður og enginn ætti að vera á ferli.
Nú er bálhvasst á Reykjanesbraut. Kl. 13:00 í dag voru 22 m/s af aust-suð-austan og í hviðum var vindurinn að fara í 30 m/s.
Á Reykjanesvita var enn hvassara. Þar eru aust-suð-austan 25 m/s og 33 m/s í hviðum.
Á Keflavíkurflugvelli eru 18 m/s af aust-suð-austan og 26 m/s í hviðum. Það þýðir að landgöngubrýr fyrir flugvélar eru ekki notaðar við þessar aðstæður.