Stjórnsýslubreytingar hjá Grindavíkurbæ og breytingar á nefndaskipan
Á fundi bæjarstjórnar kynnti bæjarstjóri skýrslu um stjórnsýslubreytingar hjá Grindavíkurbæ og breytingar á nefndaskipan. Lagt til að bæjarstjórn samþykki nýtt stjórnskipulag fyrir bæjarfélagið sem taki gildi 1. september 2011. Stjórnsýslunni verði skipt í svið, eitt stoðsvið og þrjú fagsvið. Grindavíkurhöfn verði sem fyrr sjálfstæð eining en samstarf hennar við áhaldahús verði þróað enn frekar.
Lagt er til að starfsemi Grindavíkurbæjar skiptist í fjögur svið, auk hafnarstarfsemi:
• fjármála- og stjórnsýslusvið,
• félags- og fræðslusvið,
• frístunda- og menningarsvið
• umhverfis- og skipulagssvið
• Grindavíkurhöfn
Lagt er til að sviðsstjórar hjá Grindavíkurbæ verði yfirmenn þeirra starfsmanna og þeirra stofnana sem heyra undir sviðin og sjái til þess að sérhver nefnd sveitarfélagsins hafi starfsmann sem sinni henni. Tillagan felur í sér að stjórnendum sem heyra beint undir bæjarstjóra fækkar úr 10 í 5.
Endurskoðun nefndakerfis
Lagðar eru til eftirfarandi breytingar á fastanefndum Grindavíkurbæjar.
•Lagt er til að ferða- og atvinnumálanefnd verði lögð niður og verkefni hennar falin bæjarráði.
•Lagt er til að verkefni félagsmálaráðs og húsnæðisnefndar verði falin nýrri félagsmálanefnd.
•Lagt er til að fræðslu- og uppeldisnefnd verði nefnd fræðslunefnd.
•Lagt er til að verkefni íþrótta- og æskulýðsnefndar og menningar- og bókasafnsnefndar verði falin frístunda- og menningarnefnd.
•Lagt er til að verkefni skipulags- og byggingarnefndar, og umhverfisnefndar verði falin umhverfis- og skipulagsnefnd. Byggingarmál falla að hluta út fyrir verksvið nefndarinnar skv. nýjum mannvirkjalögum.
Ekki er gert ráð fyrir breytingu á fjallskilanefnd, enda er varla hægt að líta svo á að hún sé ein fastanefnda Grindavíkurbæjar.
Stjórnandi eða starfsmaður hjá Grindavíkurbæ sinnir hverri nefnd og er ætlað að hafa yfirsýn yfir verkefni hennar. Settar verða verklagsreglur fyrir starfsmenn nefnda í erindisbréf nefnda.
Tillagan felur í sér að fastanefndum fækkar úr 11 í 7.
Í skýrslunni eru lagðar til ýmsar breytingar á vinnuferlum og flutningi verkefna milli starfsmanna. Þær breytingar munu koma fram í nýjum erindisbréfum nefnda og breyttum starfslýsingum.
Tillögurnar hafa verið unnar í samráði við forstöðumenn stofnanna Grindavíkurbæjar og hafa þeir komið ábendingum sínum og athugasemdum á framfæri við vinnslu skýrslunnar.
Bæjarstjórn samþykkir samhljóða tillögurnar og felur bæjarstjóra að gera nauðsynlegar breytingar á Samþykkt um stjórn Grindavíkurkaupstaðar og fundarsköp bæjarstjórnar og leggja fyrir bæjarstjórn til meðferðar. Jafnframt er bæjarstjóra og sviðsstjórum falið að gera ný erindisbréf fyrir nefndir og nauðsynlegar breytingar á starfslýsingum.
grindavik.is