Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Stjórnmálamenn standi vörð um almenningssamgöngur
Mánudagur 4. nóvember 2013 kl. 09:22

Stjórnmálamenn standi vörð um almenningssamgöngur

Almennt er mikil samstaða um að mikilvægt sé að halda uppi ódýrum, öruggum og tíðum almenningssamgöngum. Almenningssamgöngur eru nauðsynlegar innan og milli byggðalaga og milli helstu samgöngumiðstöðva svo almenningur geti ferðast innanlands á einfaldan og öruggan hátt. Þetta kemur fram í ályktun sem samþykkt var á aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum (SSS) sem haldinn var í Fjölbrautaskóla Suðurnesja á dögunum.

Góðar almenningssamgöngur er jákvæður kostur fyrir þá aðila sem vilja leita ódýrari leiða til að ferðast í stað einkabíls og létta á álagi í umferðinni og minnka mengun. Á komandi árum mun þörfin fyrir góðar almenningssamgöngur aðeins aukast. Því er mikilvægt að stjórnmálamenn standi vörð um það almenningssamgöngukerfi sem nú er verið að byggja upp.

Ríkið greiðir í dag háar upphæðir til að halda uppi almenningssamgöngum því staðreyndin er sú að aðeins fáar leiðir standa undir kostnaði. Vekur það því mikla furðu að til skoðunar sé að taka þær leiðir sem standa undir sér út úr almenningssamgöngukerfinu þvert á það sem gert er í nágrannalöndum okkar. Slíkt mun aðeins leiða af sér annað hvort aukinn kostnað ríkisins og almennings eða lélegri almenningssamgöngur.

Þá skorar fundurinn á stjórnmálamenn að standa vörð um almenningssamgöngur á Suðurnesjum sem og landinu öllu og til að tryggja að almenningssamgöngur séu raunhæfur kostur fyrir almenning.

SSS sjái um almenningssamgöngur

Talsverðar umræður voru um almenningssamgöngur á Suðurnesjum á nýliðnum aðalfundi SSS í ljósi stöðunnar í málefnum þessara samgangna á svæðinu.

Í febrúar 2012 var undirritaður samningur milli SSS og Vegagerðarinnar um að SSS myndi sjá um almenningssamgöngur á starfssvæði SSS og leiðirnar sem áttu að aka var á milli allra sveitarfélaga og á höfuðborgarsvæðið ásamt Flugstöð Leifs Eiríkssonar til Reykjavíkur. Þessi samningur var gerður í kjölfar þess að Lögum um fólksflutninga og farmflutninga á landi var breytt árið 2011 þannig að Vegagerðin gæti samið við landshlutasamtök um að sjá um almenningssamgöngur milli sveitarfélaga á starfssvæði þess.

Í framhaldinu bauð SSS út sérleyfi á leiðinni Flugstöð Leifs Eiríkssonar og Reykjavík og þegar niðurstaða var komin í það útboð og þar af leiðandi niðurstaða um hagnað af þeirri leið þá var farið í útboð fyrir restina af kerfinu, þ.e. almenningssamgöngur milli byggðarlaga á Suðurnesjum sem og til Reykjavíkur.

Útboðin voru í tvennu lagi til að tryggja að kerfið í heild myndi standa undir sér og skattgreiðendur þyrftu ekki að greiða með almenningssamgöngum. SBK voru lægstir í útboðinu um akstur milli Flugstöðvarinnar og Reykjavíkur. Ekki er búið að opna hitt útboðið. Það útboð gerir ráð fyrir því að almenningssamgöngur á Suðurnesjum muni stóraukast og hægt verði að taka „strætó“" til höfuðborgarsvæðisins á klukkutíma fresti og allar samgöngur milli sveitarfélaganna muni stóraukast.

Vilja samkeppni á leiðum sem standa undir sér

Félag hópferðaleyfishafa hafa andmælt mjög öllum sérleyfum og vilja að samkeppni sé á þeim leiðum sem standa undir sér. Sérstaklega hafa þeir mótmælt sérleyfi á leiðinni Flugstöð Leifs Eiríkssonar - Reykjavík. Þeir kvörtuðu til Samkeppniseftirlitsins sem komst að þeirri niðurstöðu að sérleyfi á þessari leið myndi hamla samkeppni.

Mikið af rangfærslum hjá Samkeppniseftirlitinu

Á aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum benti Bryndís Gunnlaugsdóttir Holm bæjarfulltrúi í Grindavík og lögfræðingur á að álit Samkeppniseftirlitsins væri hreinlega rangt og að útboðið á sérleiðinni væri alls ekki brot á lögum. Hún benti á að í áliti Samkeppniseftirlitsins væri mikið af rangfærslum og þyrfti langa greinargerð til að leiðrétta það. Í samtali við Víkurfréttir sagði Bryndís að helstu rangfærslurnar væru þær að aldrei er tekið tillit til þess að hagnaður af leiðinni fer í að greiða niður aðrar óarðbærar leiðir í kerfinu og slíkt er heimilt samkvæmt ESB.

„Eftir að þetta álit kom út þá lítur út fyrir að það hafi orðið sá misskilningur hjá sumum að álitið segi að sérleyfi séu ólögleg og að útboðið hafi verið ólöglegt. Slíkt er ekki rétt. ESB-lög heimila sérleyfi í almenningssamgöngum svo lengi sem kerfið í heild er ekki að skila hagnaði. Ef tilgangur kerfisins er að gera góðar, öruggar, tíðar og ódýrar almenningssamgöngur svo almenningur hagnast á því þá má þetta vera í umsjá ríkis eða landshlutasamtaka svo lengi sem það er útboð reglulega um aksturinn,“ segir Bryndís.

Síðan þetta álit Samkeppniseftirlitsins kom út hefur Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum ítrekað verið beðið um að bíða með að skrifa undir samninginn við SBK því innanríkisráðuneytið og Vegagerðin væru að skoða málið í kjölfarið af álitinu. Hefur jafnframt verið í skoðun hjá báðum þessum aðilum að breyta samningi SSS þannig að Flugstöðin - Reykjavík verði ekki lengur hluti af samningnum. Það þýðir samkvæmt því sem fram kom á aðalfundi SSS að almenningssamgöngur á Suðurnesjum munu halda áfram að vera jafn lélegar og þær eru núna nema ríkið sé tilbúið að borga meira með þeim.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024