Stjórnarsáttmálinn saminn á Vatnsleysuströnd
Ríkisstjórnarmyndunarviðræður Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks áttu sé stað á Vatnsleysuströnd í síðustu viku. Formenn flokkana þeir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson funduðu að bænum Minna-Knarrarnesi, þar sem hjónin Birgir Þórarinsson og Anna Rut Sverrisdóttir búa og reka ferðaþjónustu.
Að sögn Birgis gengu viðræðurnar vel og stóðu fram á nótt.
„Formennirnir unnu að gerð stjórnarsáttmálans. Það fór vel á með þeim og ég er sannfærður um að samstarf þeirra verði gott,“ segir Birgir.
Sigmundur og Bjarni höfðu orð á því að góður andi væri í húsinu og til gamans má geta þess að í stofunni að Minna-Knarrarnesi, þar sem þeir funduðu, eru 120 ára gamlar kirkjugólffjalir, sem Birgir lagði á stofugólfið á sínum tíma og sóma sér vel. Það má því segja að stjórnarsáttmáli nýrrar ríkisstjórnar hafi verið saminn á kirkjugólfi.
„Það veit á gott,“ segir guðfræðingurinn Birgir að lokum.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Birgir Þórarinssson og Bjarni Benediktsson.