Stjórn Kölku óánægð með sorphirðu og undirbýr nýtt útboð
Kalka hefur hafið undirbúning fyrir útboð sorphirðu og annarra þjónustu fyrir Kölku. Sorphirða á Suðurnesjum fór mjög úr skorðum í byrjun árs og var málið m.a. tekið fyrir á stjórnarfundi í Kölku í febrúar. Þar kom fram að upplýsingaöflun frá Terra hefur ekki gengið vel. Óskað hafi verið eftir upplýsingum eftir hvern losunardag. „Það gekk í 4-5 daga en ekkert eftir það. Ábyrgðarmaður virðist ekki alltaf vita hver staðan er,“ segir í fundargerðinni. Í framhaldi af því hafi forstjóra Terra verið sent bréf.
Stjórn Kölku var sammála um að Terra hafi ekki staðið sig nógu vel og var rætt um hvernig væri hægt að bregðast við. „Á seinasta fundi óskaði stjórn eftir svörum en ekki var brugðist við þeirri ósk. Stjórn vill því að ítrekun verði send á Terra og óánægju lýst. Stjórn felur framkvæmdastjóra og stjórnarformanni að óska eftir fundi sem fyrst með þeim hjá Terra,“ segir í fundargerðinni frá því í febrúar.
Á stjórnarfundi Kölku nú í mars var einnig farið yfir sorphirðu seinustu mánuði, undirbúnings útboðs, núverandi samninga og straumaskipti en fyrir fundinn átti Kalka fund með sorphirðuverktaka.